Fjármögnun nýs Landspítala ekkert vandamál

20.01.2016
DSC_0003
Frummælendur á fundi FA; Jón Finnbogason, María Heimisdóttir og Kristján Þór Júlíusson. Fullt var út úr dyrum í fundarsal FA í Húsi verslunarinnar.

Fjármögnun nýs Landspítala er ekkert vandamál. Mikil eftirspurn á skuldabréfamarkaði og batnandi staða ríkissjóðs gera það meðal annars að verkum að auðveldlega mætti fjármagna byggingu spítalans með skuldabréfaútboði að hluta til. Þetta kom fram í máli Jóns Finnbogasonar, forstöðumanns skuldabréfa hjá Stefni, á fundi Félags atvinnurekenda um nýjan Landspítala, sem haldinn var í morgun. Fullt var út úr dyrum á fundinum og urðu líflegar umræður að loknum framsöguerindum.

Jón benti á að skuldastaða ríkisins færi stórbatnandi með niðurgreiðslu lána og þar með lækkaði einnig vaxtakostnaður og svigrúm til nýrra framkvæmda ykist. Hins vegar væri pólitísk spurning hvenær ætti að hefjast handa.

Nýtt staðarval ekki inni í myndinni
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var einnig á meðal frummælenda á fundinum. Hann lagði ríka áherslu á að nýtt staðarval fyrir Landspítalann væri ekki inni í myndinni af sinni hálfu. Umboð Alþingis væri skýrt; þingið hefði ákveðið einum rómi árið 2014 að spítalinn risi við Hringbraut og hann myndi ekki hvika frá þeirri stefnumörkun. Ef vinda ætti ofan af núverandi framkvæmdaferli myndi það kosta miklar tafir á verkefninu; það þyrfti að fara aftur í gegnum flókið skipulagsferli og fá þinglega meðferð og sú vinna sem unnin hefði verið við hönnun á byggingum við Hringbraut væri þá til einskis. Kristján sagði að verkefnið væri í raun hafið, byrjað væri að grafa fyrir sjúkrahóteli við Hringbraut og hönnun komin vel á veg.

Frummælendur svöruðu spurningum fundarmanna að framsöguerindum loknum. Hanna Katrín Friðriksson fundarstjóri er lengst til hægri.
Frummælendur svöruðu spurningum fundarmanna að framsöguerindum loknum. Hanna Katrín Friðriksson fundarstjóri er lengst til hægri.

Kristján sagði aðspurður að sér litist vel á þær hugmyndir um skuldabréfafjármögnun sem Jón Finnbogason ræddi í erindi sínu og þær væru á meðal þess sem þyrfti að ræða milli velferðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins við gerð langtímaáætlunar í ríkisfjármálum til næstu ára.

Kristján svaraði meðal annars fyrirspurn frá Guðjóni Sigurbjartssyni, einum af forsvarsmönnum Samtakanna Betri spítali á betri stað, sem spurði af hverju mætti ekki setja af stað nýtt staðarval, sem kostaði ekki nema um 100 milljónir króna. Kristján spurði hvers vegna hann ætti að taka mark á þeim samtökum fremur en Alþingi, sem hefði gefið skýrt umboð til að hefja framkvæmdir við Hringbraut. Hann benti jafnframt á að 100 milljónir væru sú upphæð sem hann sem ráðherra hefði til ráðstöfunar á fjárlögum ársins til að innleiða ný lyf í heilbrigðiskerfinu. Þetta fé væri ekki hrist fram úr erminni. Guðjón benti á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra myndi styðja það að nýtt staðarval færi fram. Kristján svaraði með því að benda á að forsætisráðherra hefði greitt atkvæði með ályktun Alþingis um að nýr spítali skyldi rísa við Hringbraut.

Árleg lækkun rekstrarkostnaðar 2,6 milljarðar
María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, fjallaði um þörfina á nýjum spítala og þá hagræðingu sem bygging hans hefði í för með sér. Hún benti meðal annars á hraða fjölgun eldri borgara, sem margir hverjir hefðu langvinna sjúkdóma, en þetta kallaði á stóraukna þjónustu spítalans. Núverandi húsnæði spítalans væri þegar orðið of lítið og væri óboðlegt bæði sjúklingum og starfsfólki.

„Hættiði þessari vitleysu,“ sagði Kristján Möller alþingismaður við forsvarsmenn Samtakanna betri spítali á betri stað, sem voru mættir á fundinn. Samtökin vilja reisa nýjan spítala annars staðar en við Hringbraut.
„Hættiði þessari vitleysu,“ sagði Kristján Möller alþingismaður við forsvarsmenn Samtakanna betri spítali á betri stað, sem voru mættir á fundinn. Samtökin vilja reisa nýjan spítala annars staðar en við Hringbraut.

María benti á að Landspítalinn væri nú starfræktur á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu, í 100 húsum. Reknar væru fimm bráðamóttökur, fjórir skurðstofukjarnar, tvær gjörgæslur og 13 greiningarrannsóknardeildir, sem útheimti meðal annars 25.000 bílferðir á ári með sýni. Þá væri 25 sjúklingum á dag ekið í sjúkrabílum á milli húsa. Meirihluti núverandi húsnæðis væri orðinn meira en hálfrar aldar gamall og aðeins 8% væru byggð eftir 1990.

María benti á að sameining spítalans á einum stað myndi lækka rekstrarkostnað um 2,6 milljarða króna og draga úr mannaflaþörf. Þá fór hún yfir ýmsar úttektir og rannsóknir sem allar benda til að nýbygging sé hagkvæmari kostur til framtíðar en að notast áfram við núverandi húsnæði með tilheyrandi viðhaldi og viðbyggingum.

Glærur Kristjáns Þórs

Glærur Maríu

Glærur Jóns

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning