Flöskuháls hjá Samgöngustofu veldur fyrirtækjum tjóni

13.05.2016
Bilar i Sundahofn
Bílar bíða tollafgreiðslu í Sundahöfn.

Félag atvinnurekenda hefur sent Samgöngustofu erindi og hvatt til þess að fundnar verði leiðir til að koma afgreiðslutíma umsókna vegna forskráningar ökutækja sem flutt eru inn til landsins í fyrra horf. Á undanförnum misserum hefur afgreiðslutíminn lengst úr 1-2 virkum dögum í tvær vikur. Það hefur í för með sér verulegan kostnað fyrir bílaleigur og önnur fyrirtæki sem flytja inn nýja og notaða bíla.

Skilyrði fyrir innflutningi og tollafgreiðslu ökutækis er að það hafi verið forskráð hjá Samgöngustofu og fengið úthlutað föstu númeri. Á eyðublöðum stofnunarinnar vegna umsóknar um forskráningu kemur fram að hún áskilji sér 14 daga til að afgreiða umsóknir, en afgreiðslutími sé þó að jafnaði innan við þrír dagar. Fyrir nokkrum misserum var afgreiðslutíminn að jafnaði 1-2 dagar. Að undanförnu hefur dráttur á afgreiðslu umsókna hins vegar orðið verulegur og er afgreiðslutíminn nú um það bil tvær vikur, samkvæmt upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum FA sem flytja inn bíla.

Eydublad Samgongustofa
Texti á eyðublaði fyrir forskráningu ökutækja.

Fyrirtækin neyðast yfirleitt til að sækja um forskráningu með skömmum fyrirvara. Ástæða þess er að með umsókninni verður að fylgja farmbréf sem verður fyrst til þegar vara er afhent í erlendri höfn. Það er oft ekki tilbúið fyrr en um það leyti sem flutningaskipið leggur úr höfn.

Afleiðing langs afgreiðslutíma umsókna um forskráningu er að ökutæki fást ekki tollafgreidd og bíða á hafnarbakkanum. Eftir að umsókn um forskráningu hefur verið afgreidd tekur oftast um fjóra virka daga að koma ökutækinu í umferð, þar sem framleiða þarf númeraplötur, tollafgreiða og skráningarskoða bílinn.

Fyrir fyrirtæki í bílainnflutningi, til dæmis bílaleigur, þýðir þessi bið þrenns konar kostnað og óhagræði:

  • Daggjöld á bílastæðum skipafélaganna nema verulegum fjárhæðum
  • Tapaðar tekjur vegna ökutækja sem ekki komast í umferð
  • Vaxtakostnaður er gríðarlegur í núverandi hávaxtaumhverfi

Í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til Samgöngustofu segir: „Óhætt er að fullyrða að kostnaðurinn fyrir einstök fyrirtæki hleypur á milljónum og vafalaust á tugum milljóna fyrir ferðaþjónustuna sem heild. Flöskuhálsinn hjá Samgöngustofu veldur því tjóni hjá atvinnulífinu sem er margfalt meira en þeir fjármunir sem þyrftu að koma til að flýta afgreiðslu umsókna og vinna upp bunkann sem bíður.“

FA leyfir sér að benda á að mikil aukning á innflutningi bifreiða nú í ár hafi verið fyrirséð vegna spár um mikla fjölgun ferðamanna og vaxandi einkaneyslu. Vandann hefði mátt forðast með betra skipulagi og forgangsröðun fjármuna.

„Nú er hápunktur ferðamannavertíðarinnar framundan. Félag atvinnurekenda leyfir sér að hvetja til þess að Samgöngustofa leiti leiða til að forgangsraða þannig að koma megi afgreiðslutíma umsókna um forskráningu ökutækja í það horf sem áður var, þannig að afgreiðsla þurfi ekki að taka meira en 2-3 daga. Dráttur á því að þessi mál komist í lag veldur fyrirtækjunum sem í hlut eiga enn frekara tjóni,“ segir í bréfi FA.

Bréf FA til Samgöngustofu

Nýjar fréttir

Innskráning