FME kanni mismunun vegna gengislána

10.10.2016

IMG_3005Félag atvinnurekenda hefur farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það taki til rannsóknar meðferð Landsbankans á leiðréttingum til fyrirtækja vegna gengistryggðra lána. Að mati FA hafa fyrirbæri í sambærilegri stöðu gagnvart bankanum verið meðhöndluð með ólíkum hætti. Erindi var sent FME í júní og barst svar í ágúst, þar sem fram kom að ábendingin yrði skoðuð og metið hvort ástæða væri til frekari athugunar. Svipað erindi var sent Samkeppniseftirlitinu, sem hafnaði því hins vegar að taka málið til rannsóknar.

Félag atvinnurekenda hefur undanfarin misseri ítrekað vakið athygli á stöðu gengislána fyrirtækja og að enn séu mörg mál óleyst.

Í erindi FA til FME er vísað til vitnaskýrslu í máli Innness, eins aðildarfyrirtækja FA, gegn Landsbankanum er það var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögfræðingur sem starfar hjá Landsbankanum upplýsti þar að bankinn hefði byggt á ákveðinni aðferðafræði við ákvarðanir um það hvaða fyrirtæki fengju gengislán sín leiðrétt og hver ekki. Fyrirtæki sem væru yfir viðmiðum samkvæmt skilgreiningu Evrópuréttar á litlum fyrirtækjum (yfir 10 milljónir evra í tekjur, yfir 10 milljónir evra í eignir og yfir 50 starfsmenn) hefðu verið sett í sérstakan flokk og lán þeirra ekki endurreiknuð með tilliti til fullnaðarkvittana. FA hefur áður gagnrýnt þessa aðferðafræði Landsbankans og talið skilgreininguna á „stórum“ fyrirtækjum ná til tiltölulega lítilla fyrirtækja, sem hefðu klárlega verið í aðstöðumun gagnvart bankanum í skilningi dómafordæma Hæstaréttar.

IMG_3004
Fjármálaeftirlitið er til húsa í turninum við Höfðatorg.

Ekki farið eftir 100 milljóna viðmiðuninni
Í vitnaskýrslunni kom ennfremur fram að þrátt fyrir þessa aðferðafræði bankans hefði í mörgum tilfellum verið ákveðið að klára mál við fyrirtæki sem féllu í þann flokk  að bankinn taldi þau ekki eiga rétt á endurútreikningi samkvæmt fullnaðarkvittunum. Til viðbótar við skilgreininguna á stærð fyrirtækis hefði bankinn bætt mati á því hvort um háa eða lága viðbótarkröfu væri að ræða og miðað þar við 100 milljónir króna.

Í erindi FA til FME segir að ljóst sé að Landsbankinn hafi gert undantekningar frá aðferðafræði sinni þegar viðbótarkrafa á hendur fyrirtækjum vegna gengislána hafi verið undir 100 milljónum króna.

„Í því felst að bankinn mat viðkomandi lántaka sem svo að hann ætti ekki rétt á fullnaðarkvittunum en viðurkenndi engu að síður gagnvart viðkomandi lántaka að hann ætti rétt á leiðréttingu, ef viðbótarkrafan væri undir 100 milljónum. Þannig virðist umfang viðbótarkröfunnar hafa ráðið því hvort viðkomandi fyrirtæki væri boðið að fá leiðréttinguna viðurkennda. Engu að síður var fyrirtækjum sem voru með hærri viðbótarkröfu en 100 milljónir vegna sinna lána ekki boðið að fá greiðslu upp á 100 milljónir eða gera sín mál upp með þeim hætti. Þessum fyrirtækjum var ekki tilkynnt um að öðrum fyrirtækjum stæði slíkt til boða,“ segir í erindinu.

Jafnræðis ekki gætt
Að mati FA getur þessi aðferðafræði bankans ekki talist málefnaleg. „Í henni felst að ekki er gætt jafnræðis milli viðskiptavina, þar sem upphæð viðbótarkröfu er látin ráða því hvaða fyrirtæki fær og hvaða fyrirtæki fær ekki. Fyrirtæki, sem bankinn hefur skilgreint að séu í sambærilegri stöðu, fá þannig ólíka afgreiðslu eftir því hversu há krafan er,“ segir í erindi FA.

Höfuðstöðvar Landsbankans. Mynd: Landsbankinn.
Höfuðstöðvar Landsbankans. Mynd: Landsbankinn.

Þar er jafnframt minnt á að Landsbankinn sé í 98% eigu íslenska ríkisins og að í eigandastefnu ríkisins segi m.a.: „Bankarnir skulu leitast við að gæta jafnræðis í störfum sínum gagnvart viðskiptavinum sínum og fara eftir skilgreindum ferlum og verklagi.“

Í erindi FA er tekið dæmi um það hvernig aðferð bankans felur í sér að fyrirtækjum í sambærilegri stöðu er mismunað: „Í dæmaskyni má nefna að tvö fyrirtæki, sem bæði voru í grunninn metin stór af hálfu bankans, fengu miðað við aðferðafræði bankans mismunandi afgreiðslu eftir því hvort viðbótarkrafa þeirra var 80 milljónir eða 120 milljónir. Fyrrnefnda fyrirtækið í þessu dæmi fékk þá sína kröfu greidda að fullu, en síðarnefnda fyrirtækið fékk ekkert greitt.“

Stór vandi enn óleystur
Fjallað var um þetta mál í kvöldfréttum Stöðvar 2 mánudagskvöldið 10. október. „Fyrirtæki sem bankinn skilgreinir í sömu stöðu eru meðhöndluð með mismunandi hætti eftir því hvort viðbótarkrafa var há eða lág, sem er nokkuð sem okkur finnst ekki að eigi að skipta máli í þessu sambandi. Það er alveg klárlega mismunun,“ sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í samtali við fréttamann.

Frétt Stöðvar 2 um málið

Lengri útgáfa af fréttinni á Vísi, með svörum Landsbankans

Meira um vinnu FA vegna gengislána fyrirtækja

Nýjar fréttir

Innskráning