Fræðum og græðum – félagsfundur 6. október

24.09.2021

Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar miðvikudaginn 6. október næstkomandi kl. 10, undir yfirskriftinni „Fræðum og græðum – nýtum Starfsmenntasjóð verslunarinnar til að styrkja starfsfólkið okkar í starfi“. Á fundinum munu sex fræðslufyrirtæki innan raða FA kynna nálgun sína á fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn fyrirtækja. Jafnframt verða kynntir möguleikar fyrirtækja til að sækja um styrki í Starfsmenntasjóðinn samkvæmt starfsreglum hans, svo og verkefnið „fræðslustjóri að láni“.

Öll fyrirtæki þurfa að huga að þörf sinni og starfsmanna sinna fyrir endurmenntun, þjálfun og fræðslu. Með kjarasamningi árið 2000 var settur á laggirnar Starfsmenntasjóður verslunarinnar, með aðild FA, VR og Landssambands verzlunarmanna. Markmið sjóðsins er að auka hæfni og menntun starfsmanna fyrirtækjanna í FA, ásamt því að stuðla að auknu framboði af námi og námsefni sem svari þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Framlag vinnuveitenda í sjóðinn er 0,3% af launagreiðslum. Stéttarfélögin greiða mótframlag sem nemur 0,05% af sama stofni.

Kannanir FA meðal félagsmanna hafa sýnt að eingöngu um þriðjungur fyrirtækjanna nýtir sér Starfsmennasjóðinn. Það þýðir að tveir þriðjuhlutar félagsmanna hafa greitt háar fjárhæðir í sjóðinn af launum starfsmanna sinna, en njóta ekki þess ávinnings sem felst í styrkjum sjóðsins til fræðslu og þjálfunar starfsmanna. Í Starfsmenntasjóði verslunarinnar eru nú um 200 milljónir króna – miklir peningar, sem FA vill koma í vinnu! Með því að nýta Starfsmenntasjóðinn til að fræða og þjálfa starfsfólkið græða allir, bæði fyrirtækin og starfsmenn þeirra.

FA fékk Attentus til að vinna fyrir félagið greiningu á fræðsluþörfum aðildarfyrirtækja og skilaði fyrirtækið skýrslu um þær. Innan félagsins eru öflug fræðslufyrirtæki og hefur FA farið þess á leit við þau að þau stilli upp námsframboði sem taki mið af þörfunum eins og þær voru skilgreindar í úttekt Attentus. Öll bjóða þessi fyrirtæki upp á fjölbreytta fræðslu og þjálfun og eru oft reiðubúin að sérsníða lausnir fyrir fyrirtæki. FA hvetur félagsmenn því til að kynna sér fræðsluframboð þeirra vel – mæting á félagsfundinn er fyrsta skrefið í því.

Við hvetjum mannauðs- og fræðslustjóra sérstaklega til að mæta, sé þeim til að dreifa í viðkomandi fyrirtæki, en fundarefnið á erindi við alla stjórnendur sem vilja fá meira út úr starfsfólkinu sínu og tryggja ánægju þess og þróun í starfi.

Dagskrá fundarins:

10.00 Inngangur – Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA
10.05 Hvað styrkir Starfsmenntasjóður verslunarinnar? – Selma Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í SV
10.20 Verkefnið fræðslustjóri að láni – Anna Kristín Kristjánsdóttir, varaformaður FA og stjórnarmaður í SV
10.30 Kynning á Þekkingarmiðlun – Eyþór Eðvarðsson, ráðgjafi og eigandi
10.40 Kynning á Gerum betur – Margrét Reynisdóttir, framkvæmdastjóri
10.50 Kynning á Dale Carnegie – Unnur Magnúsdóttir, ráðgjafi og eigandi
11.00 Kynning á Akademias- Guðmundur Arnar Guðmundsson framkvæmdastjóri
11.10 Kynning á Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum – Skúli Gunnsteinsson, framkvæmdastjóri
11.20 Kynning á Promennt – Aldís Sveinsdóttir námsstjóri og Eydís Eyland Brynjarsdóttir markaðsstjóri

Fundarstjóri er Ólafur Stephensen.

Fundurinn er haldinn í fundarsal FA á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Hann hefst eins og áður segir kl. 10 og er áætlað að hann standi í 90 mínútur. Mikilvægt er að skrá sig á fundinn hér fyrir neðan vegna sóttvarnaráðstafana. Fundinum verður einnig streymt á Facebook-síðu FA.

Nýjar fréttir

Innskráning