Framsókn og réttaröryggið

09.11.2018

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Morgunblaðinu 9. nóvember 2018.

Að mati EFTA-dómstólsins getur Ísland ekki bannað innflutning á ferskum búvörum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, skrifaði merkilega grein í Morgunblaðið í gær. Þar fjallar ráðherrann um nýlegan dóm Hæstaréttar, þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti brjóti í bága við EES-samninginn. Þar með var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kallaði ákvörðun íslenzkra stjórnvalda um að viðhalda banninu „vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda.“

„Framsókn segir nei“
EFTA-dómstóllinn hefur komizt að þeirri niðurstöðu að það sé ekki eingöngu bannið við innflutningi á fersku kjöti sem sé ólöglegt, heldur einnig bann við innflutningi á ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Í samræmi við það gerðu lögmenn íslenzka ríkisins í síðustu viku réttarsátt, þar sem ríkið viðurkenndi bótaskyldu sína í máli þar sem fersk egg voru gerð upptæk í tolli.

Samráðherra Sigurðar Inga, Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur ennfremur lýst því yfir að bannið verði afnumið. Nú virðist sem hann hafi a.m.k. annan samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn ekki lengur að baki sér í þeirri ákvörðun að fara að lögum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. „Framsókn segir nei,“ skrifar Sigurður Ingi í greininni og boðar að Framsóknarflokkurinn muni „leita allra leiða með samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn og á vettvangi Norðurlanda til að koma í veg fyrir að heilsu landsmanna verði fórnað fyrir skammtímahagsmuni.“

Hér er djúpt tekið í árinni. Og ekki heldur farið rétt með forsögu málsins. Sigurður Ingi lætur í það skína að það séu bara „einstakir kaupmenn og heildsalar sem hafi lengi barist fyrir því að opna landið fyrir erlendum matvælum, nú síðast hráu kjöti.

Framsókn gerði samninginn
Þetta passar ekki við staðreyndir mála. Það voru íslenzk stjórnvöld sem sömdu við Evrópusambandið um að taka upp matvælalöggjöf sambandsins í EES-samninginn. Það þýðir meðal annars að sömu lög og reglur gilda um matvælaeftirlit á öllu svæðinu og matvörur eru í frjálsu flæði innan þess. Heilbrigðiseftirlitið fer fram á upprunastað en matvörur eru undanþegnar heilbrigðiseftirliti á landamærum, nema þá stikkprufum. Jafnframt eru í gildi ýtarlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir smit milli landa ef dýrasjúkdómar eða matarsýkingar koma upp. Það var ekki samið um búvörur í tómarúmi; samningar náðust um að það sama gilti um sjávarafurðir, en það er auðvitað gífurlegt hagsmunamál fyrir íslenzkan sjávarútveg.

Samningarnir um upptöku matvælalöggjafarinnar í EES-samninginn voru í grundvallaratriðum frágengnir í landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar, forvera Sigurðar Inga á formannsstóli Framsóknarflokksins, þótt hann vilji reyndar ekki kannast við það í seinni tíð.

Sjúkdómar koma frekar með fólki en kjöti
Stjórnvöld fengu á þessum tíma vísindalega ráðgjöf, sem mælti ekki gegn því að gengið yrði til þessara samninga. Þannig var niðurstaða Halldórs Runólfssonar, þáverandi yfirdýralæknis: „Eins og málum er nú háttað þá eru, að mati yfirdýralæknis, meiri líkur á að hingað berist framandi dýrasjúkdómar með fólki heldur en með löglega innfluttu hráu kjöti. Ekki eru miklar líkur á að lýðheilsu verði stefnt í aukna hættu með umræddum breytingum, að því gefnu að gerðar verði ráðstafanir til að stemma stigu við innflutningi á kjúklingakjöti menguðu af kamfýlóbakter.

Ekki hefur orðið vart við krankleika hjá mönnum eða dýrum vegna heimildar ferðamanna til að flytja með sér ógerilsneydda osta, þrátt fyrir hrakspár Sigurðar Inga.

Spádómar dýralæknisins
Þetta er ekki í neinu samræmi við spádóma Sigurðar Inga um að heilsu bæði búfjár og manna (hinna síðarnefndu vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis) sé í hættu stefnt vegna innflutnings á fersku kjöti. Ráðherrann dregur upp dýralæknismenntun sína í greinarskrifunum. Hann spáði því reyndar líka árið 2012, þegar ákveðið var að ferðamenn mættu hafa með sér eitt kíló af osti úr ógerilsneyddri mjólk til landsins, að það myndi hafa „alvarlegar afleiðingar“ og væri „óskiljanleg“ ráðstöfun. [Viðtal við SIJ í Bændablaðinu 12. júlí 2012] Hér erum við nú samt rúmum sex árum síðar og ekki hefur orðið vart við heilsubrest hjá mönnum eða skepnum vegna þessa ostainnflutnings, sem Sigurður Ingi taldi „óhóflegan“, þannig að kannski ættum við ekki að taka of mikið mark á honum sem dýralækni.

Ekki áhrif á sýklalyfjaónæmi
Félag atvinnurekenda fékk hins vegar tvo óvilhalla dýralækna, sem hafa langa reynslu af matvælaeftirliti og hafa starfað fyrir ríkisstjórnir víða um heim og Bændasamtök Íslands, svo dæmi séu nefnd, til að leggja mat á áhættuna vegna innflutnings á ferskvöru og skrifa um það skýrslu. Niðurstaða þeirra var að ekki væru haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskvörunni myndi hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virtist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum myndi hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Nýlegar rannsóknir, sem sérfræðingarnir fóru yfir, benda til þess að lítið samhengi sé á milli lyfjaþolinna baktería í fólki og þeirra sem finnast í matvælum. Niðurstaða þeirra er að ofnotkun sýklalyfja í heilbrigðiskerfinu sé nær alfarið orsök lyfjaþols sýkla hjá fólki.

Skýrsluhöfundarnir komust sömuleiðis að þeirri niðurstöðu, rétt eins og yfirdýralæknir á sínum tíma (og raunar núverandi yfirdýralæknir líka) varðandi dýrasjúkdómana, að aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.

Hvað segir Framsókn?
Eftir lestur greinar Sigurðar Inga standa eftir nokkrar spurningar, sem væri gott að fá svör við:

  1. Telur Framsóknarflokkurinn það heiðarlegt að standa ekki við gerða samninga?
  2. Hvert er réttaröryggi fyrirtækja þegar bæði æðsti dómstóll landsins og alþjóðlegur dómstóll hafa komizt að sömu niðurstöðu um að lög séu brotin á þeim, en stjórnmálamenn lýsa því yfir að þeir muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hafa hana að engu?
  3. Er Framsóknarflokkurinn reiðubúinn að halda áfram að brjóta EES-samninginn hvað varðar innflutning á ferskum búvörum og stefna þannig í hættu hagsmunum íslenzks sjávarútvegs af hindrunarlausum útflutningi á fiski til EES-ríkja?
  4. Hvernig hyggst Framsóknarflokkurinn berjast gegn þeirri hættu sem steðjar að dýrastofnum og fólki vegna aukinna ferðalaga fólks á milli landa og vísindamenn eru sammála um að sé miklu stærri ógn en löglegur innflutningur á mat? Ætlar flokkurinn að berjast fyrir hömlum á ferðalög?

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning