Franskar, tyggjó og tollar

22.09.2022
Tyggjóið er tollfrjálst, 46% tollur á frönsku kartöflunum.

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 22. september 2022.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, skrifaði grein í Morgunblaðið laugardaginn 17. september og vék þar nokkrum orðum að tollamálum, sem Félag atvinnurekenda hefur látið talsvert til sín taka. Ég fagna tækifæri til að koma á framfæri nokkrum atriðum í framhaldi af grein míns ágæta kollega.

Vigdís segir í grein sinni að það sæti furðu að „tollvernd á franskar kartöflur og svo landbúnaðarvörur í heild sinni skuli hafa orðið sá fókus sem raun ber vitni undanfarna daga en ekki t.d. 20% tollur á tyggigúmmí, sem mér best vitandi er ekki framleitt innanlands.“

Það er ekki sízt greinarhöfundur sem ber ábyrgð á að tollvernd fyrir franskar kartöflur skuli hafa verið í fókus að undanförnu. FA hefur lengi barizt fyrir því að 76% tollur á franskar kartöflur – hæsti prósentutollur tollskrárinnar – verði felldur niður, með þeim rökum að hann verndi ekki íslenzkan landbúnað heldur eitt iðnfyrirtæki sem framleiddi til skamms tíma franskar kartöflur og það að stórum hluta úr innfluttu hráefni. Svo hætti fyrirtækið framleiðslu á frönskum kartöflum á dögunum og þá blasir við (flestum) að verndartollurinn þjónar engu hlutverki lengur.

Munurinn á tyggjói og frönskum
Vigdís vill ræða toll á tyggigúmmí í samhengi við fröllutollana. Það er rétt hjá henni að í tollskránni er almenni tollurinn á tyggjó 20% – en reyndar aðeins ef það inniheldur sykur. Sykurlaust tyggigúmmí, sem ber 13% toll, var rúmlega 84% tyggjóinnflutnings á síðasta ári í tonnum talið samkvæmt tölum Hagstofunnar. Samkvæmt EES-samningnum og ýmsum fleiri fríverzlunarsamningum sem Ísland hefur gert ber tyggjó hins vegar engan toll. Þannig lagðist tollur aðeins á 2,4% af tyggjóinnflutningi síðasta árs, hin 97,6 prósentin komu frá ríkjum sem Ísland hefur samið við um niðurfellingu tollsins.

Þar er komið að stóra muninum á tyggigúmmíi og frönskum kartöflum. Eins og áður segir bera franskar 76% toll. Í fríverzlunarsamningum sem Ísland hefur gert, m.a. við Kanada, Bretland og Evrópusambandið, hafa íslenzk stjórnvöld allra náðarsamlegast fallizt á að þær skuli bera „aðeins“ 46% toll. Þessi verndartollur kostar íslenzka neytendur hið minnsta 300-400 milljónir króna á ári.

Með öðrum orðum er auðvelt fyrir innflutningsfyrirtæki að flytja inn tyggjó án tolla. Það er hins vegar allsendis ómögulegt að flytja inn franskar kartöflur án þess að borga 46% toll. Það er ástæðan fyrir því að meira er talað um fröllutollinn en tyggjótollinn, þótt það væri að sjálfsögðu æskilegt að losna líka við þann síðarnefnda.

Tollverndin mest á Íslandi
Framkvæmdastjóri BÍ segir réttilega að tollar séu ekkert séríslenzkt fyrirbæri og vitnar til talna, sem samtökin hafa áður haldið á lofti, um að á Íslandi séu 87% þeirra tollskrárnúmera, sem ná til landbúnaðarvara, tollfrjáls í gegnum hina ýmsu viðskiptasamninga. Þetta á að sýna að tollvernd búvara sé ekki íþyngjandi á Íslandi. Það gleymist að nefna að ástæðan er sú að á Íslandi er framleitt mjög þröngt úrval búvara í samanburði við hið ríkulega framboð þeirra á heimsmarkaði. Íslenzk stjórnvöld hafa sem betur fer borið gæfu til að fella niður eða semja um afnám margra verndartolla sem vernda enga innlenda framleiðslu, enda væru þeir ástæðulaus skattur á neytendur – rétt eins og fröllutollurinn.

Þegar litið er á þá vernd sem tollar veita framleiðendum innlendra búvara blasir hins vegar við önnur mynd. Í skýrslu um þróun tollverndar, sem unnin var á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir tveimur árum, kemur skýrt fram að tollvernd fyrir innlendan landbúnað er ríkust á Íslandi af vestrænum ríkjum samkvæmt gögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).  Niðurstaða skýrsluhöfunda er að tollvernd á Íslandi sé langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD. Þannig var afurðaverð til bænda að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi á árunum 2017-2019. Þetta er nærri því 20 sinnum meiri tollvernd en í Evrópusambandinu, þar sem hún nemur 4% samkvæmt sömu reikniaðferð. Í OECD í heild er hlutfallið 12%. Þetta eru hlutföll sem er gott að hafa í huga þegar við berum Ísland saman við önnur vestræn ríki.

Mismunandi túlkanir á tollskrá eru viðskiptahindrun
Loks fjallar Vigdís um mikilvægi þess að landbúnaðarvörur séu rétt tollflokkaðar og um það getum við verið sammála. Hún nefnir misræmi í hagtölum Evrópusambandsins um útflutning búvara til Íslands og í tölum Hagstofunnar um innflutning. Við erum líka sammála um að æskilegt er að finna ástæðurnar fyrir því misræmi. Vigdís segir að oft geti verið um háar fjárhæðir að ræða fyrir ríkissjóð að vörur séu rétt tollflokkaðar. Þar getur líka verið um háar fjárhæðir að tefla fyrir innflutningsfyrirtæki. Því miður eru nýleg, staðfest dæmi um að innflutningsfyrirtæki fái háa bakreikninga frá Skattinum fyrir að hafa flutt inn vörur á „röngu“ tollskrárnúmeri, þrátt fyrir að hafa verið í góðri trú þar sem tollayfirvöld í ESB töldu flokkunina rétta – og einnig embættismenn Skattsins sem leitað hafði verið ráða hjá.

Sömuleiðis liggur fyrir að ágreiningur er á milli Íslands og Evrópusambandsins um tollflokkun á sumum vörum. Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska viðskiptaráðið, sem FA rekur, hafa bent á að ólík túlkun á samræmdu tollskránni sé í raun hindrun í vegi viðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu og skorað á stjórnvöld að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB.

Það má vona …
Verndartollar á búvörur hverfa ekki á næstunni, en það má vona í fyrsta lagi að Ísland hætti að leggja á verndartolla sem ekkert vernda, í öðru lagi að dregið verði úr mestu tollvernd í hinum vestræna heimi og í þriðja lagi að tilhögun tolla geri ekki rekstrarumhverfi innflutningsfyrirtækja flókið og ófyrirsjáanlegt.

Nýjar fréttir

Innskráning