Félag atvinnurekenda hefur skrifað Póst- og fjarskiptastofnun bréf og vakið athygli á gífurlega mismunandi verðþróun á svokallaðri alþjónustu Íslandspósts ohf. (þjónustu sem fyrirtækið er skyldað að veita) eftir því hvort ÍSP hefur einkarétt á þjónustunni eða hvort hún er rekin í samkeppni við einkaaðila.
Þannig hefur bögglapóstur sáralítið hækkað í verði í tvö og hálft ár, en sú þjónusta er í samkeppni. Svokallaður magnpóstur B, sem er sá bréfaflokkur í einkarétti sem fyrirtæki nýta mest til að hafa samskipti við viðskiptavini sína, hefur hins vegar hækkað um rúmlega 46%. Í töflunni hér að neðan er verð pakkasendinga birt án virðisaukaskatts, sem lækkaði í ársbyrjun 2015. Bréfapóstur ber ekki virðisaukaskatt.
„Þessi munur vekur furðu og margar spurningar. Verðskrárhækkun vegna bréfa í einkarétti um síðustu mánaðamót var þannig réttlætt með vísan til meiri launahækkana í kjarasamningum en ÍSP gerði ráð fyrir í áætlunum sínum. Auka þær hækkanir ekki kostnað vegna pakkasendinga, ekki síður en vegna bréfasendinga?“ segir í bréfi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til PFS.
Undirverðlagning og versnandi afkoma
Í bréfinu segir að ekki verði annað séð en að um sé að ræða undirverðlagningu ríkisfyrirtækisins á þeirri þjónustu sem teljist til samkeppnisrekstrar innan alþjónustu. Vakin er athygli á ákvæðum póstlaga, sem kveða á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði.
FA bendir á versnandi afkomu samkeppnisrekstrar innan alþjónustu á undanförnum árum. „Miðað við þá mynd, sem dregin hefur verið upp hér að framan, hefur PFS ekki sinnt því hlutverki sínu að hafa eftirlit með gjaldskrá ÍSP vegna samkeppnisrekstrar innan alþjónustu. Þjónustan er rekin með hvínandi tapi vegna undirverðlagningar, en slíkt er í beinni andstöðu við lög um póstþjónustu,“ segir í bréfinu.
Birta ekki skilmála þrátt fyrir lagaskyldu
Þá vekur FA athygli á ákvæðum laga og starfsleyfis Íslandspósts, um að fyrirtækið skuli birta opinberlega viðskiptaskilmála sína, þar á meðal upplýsingar um afslætti. Þrátt fyrir það hafi ÍSP ekki birt á heimasíðu sinni upplýsingar um hvaða magnafsláttur er t.d. veittur af bögglasendingum, sem eru í samkeppni við einkaaðila. „Sterkar vísbendingar eru um að fyrirtækið hafi náð til sín slíkum viðskiptum með undirverðlagningu. Engu að síður hefur FA séð skjalfest dæmi þess að PFS neiti keppinautum Íslandspósts um að ganga á eftir því við ríkisfyrirtækið að það birti afsláttarskilmála sína opinberlega, líkt og löggjafinn hefur ætlazt til,“ segir í bréfi FA.
Ætlar PFS að sinna lögbundnu eftirliti?
Félag atvinnurekenda telur þessa þróun mikið áhyggjuefni og að heilbrigðu samkeppnisumhverfi í póstþjónustu sé í hættu stefnt vegna vanrækslu PFS á lögbundnu eftirlitshlutverki sínu með Íslandspósti. Félagið beinir að lokum tveimur spurningum til Póst- og fjarskiptastofnunar:
- Hyggst PFS ganga á eftir því að Íslandspóstur færi verðskrár sínar fyrir samkeppnisrekstur innan alþjónustu til samræmis við raunkostnað, að viðbættum hæfilegum hagnaði, eins og lög kveða á um?
- Hyggst PFS ganga á eftir því að Íslandspóstur birti viðskiptaskilmála sína, þar með talda afsláttargjaldskrá fyrir bögglapóst, eins og starfsleyfi fyrirtækisins og lög kveða á um?