Ætlar ekki að verja tollakerfi sem veldur vöruskorti

15.09.2021
Ólafur Stephensen og Bjarni Benediktsson ræða saman í Kaffikróknum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segist ekki ætla að verja kerfi sem valdi vöruskorti, eins og gerst hefur undanfarið vegna hárra tolla á grænmeti. Hann telur að netverslun með áfengi sé lögleg, svo lengi sem um raunveruleg milliríkjaviðskipti sé að ræða og vill afnema bann við áfengisauglýsingum og leyfa þær með skilyrðum. Bjarni var gestur Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Kaffikróknum í dag. Hægt er að horfa á samtal þeirra í spilaranum hér að neðan.

Hvar er hægt að færa okkur úr gömlu regluverki tollverndar?
Ólafur spurði Bjarna meðal annars út í háa blómatolla, sem leggjast þungt á blómaverslun og neytendur og sagðist Bjarni þeirrar skoðunar að jafna þyrfti aðstöðu innlendra búvöruframleiðenda gagnvart samkeppni við innflutta vöru, sem væri jafnvel framleidd með ríkisstyrkjum. Í Noregi hefðu afleiðingar af fríverslunarsamningum við Afríkuríki verið ófyrirséðar; norsk blómarækt hefði nánast lagst af. Hann ræddi drög að nýrri landbúnaðarstefnu, sem rædd voru í ríkisstjórninni í vikunni og sagði að spyrja þyrfti hvar sóknarfæri íslensks landbúnaðar lægju. „Hvar gætum við fært okkur úr gömlu regluverki tollverndar fyrir einstaka vörur, sem eru ekki endilega að fara að skapa mörg störf á Íslandi og hvar gætum við sótt fram, jafnvel þannig að við færum að flytja út,“ sagði Bjarni. Hann sagði að hægt væri að flytja út t.d. ákveðnar grænmetistegundir ef stuðningnum væri beint í réttar áttir. Þá þyrfti að beina styrkjum í auknum mæli í t.d. landvörslu, ræktun lands og þátttöku í kolefnisbindingu og hverfa í leiðinni frá vernd vegna framleiðslu sem ætti sér litla framtíð eða þar sem Ísland hefði ekki samkeppnislega yfirburði.

Ólafur ræddi það sem FA vakti athygli á í síðustu viku, að vegna hárra tolla er skortur á selleríi í landinu. Í svipað ástand gæti stefnt varðandi t.d. blómkál, spergilkál og hvítkál. Grænmetisbændur hefðu sjálfir farið fram á að tollar yrðu felldir niður en þeir fengju á móti beingreiðslur eins og gerðist þegar tollar af ylræktuðu grænmeti voru felldir niður á sínum tíma. Ríkið hefði hins vegar ekki verið til viðræðu um það. „Þýða þá ekki þessi nýju stefnudrög að menn ætli einmitt frekar að fara slíkar leiðir?“ spurði Ólafur.

„Mér finnst það og ég ætla auðvitað aldrei að verja að við komum upp kerfi sem leiðir til vöruskorts í einstökum tegundum,“ svaraði Bjarni. „Við viljum upplifa að við búum í opnu, frjálsu markaðshagkerfi þar sem það er ekki óeðlilegt að vara fari á milli landa og að neytandinn hafi raunverulegt val. Ég trúi því að íslenskir bændur geti sinnt markaðnum með framúrskarandi góðri vöru og þeir geti líka notið nálægðar við markaðinn og það sé eftirspurn eftir innlendri framleiðslu. En í sumu borgar sig ekki fyrir okkur að reyna að keppa.“

Sér ekki lögbrotið í netverslun með áfengi ef um milliríkjaverslun er að ræða
Bjarni var spurður út í fyrirspurnir FA til ráðuneyta um lögmæti netverslunar með áfengi, en undirstofnun fjármálaráðuneytisins, ÁTVR, hefur farið fram með kærum á hendur netverslunum. Bjarni var sömuleiðis spurður út í ummæli Finns Oddssonar, forstjóra Haga, í Viðskiptamogganum í dag, um að Hagar séu í startholunum með vefverslun með áfengi en lagaramminn um áfengissölu sé það óskýr að fjöldi fyrirtækja sé að velta fyrir sér á degi hverjum hvað má og hvað má ekki. Slíkur óskýrleiki valdi sóun af versta tagi.

Bjarni svaraði því til að sjálfstæðismenn hefðu viljað höggva á hnútinn með frumvarpi sem tæki af vafa um að innlend vefverslun væri leyfileg, en ekki hefði verið samhljómur innan ríkisstjórnarinnar um það mál og hann efaðist um að þingmeirihluti hefði verið fyrir því. Bjarni sagði að tímarnir væru breyttir og auðvelt að kaupa áfengi frá öðrum löndum. „Það getur varla verið vafa undirorpið samkvæmt mínum skilningi á lögunum og umhverfinu sem við störfum í, að þrátt fyrir ákvæði laganna um að ÁTVR megi ein afhenda áfengi á Íslandi, tryggi EES-samningurinn frjálst vöruflæði, líka fyrir þessa vöru, á Evrópska efnahagssvæðinu. Að því marki sem íslenskir aðilar með einum eða öðrum hætti eru að stunda milliríkjaviðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, þá sé ég ekki í hverju lögbrotið á að felast. Það sem ég held að ÁTVR sé að segja er: „Þetta eru ekki eiginleg milliríkjaviðskipti heldur einhvers konar gervimilliríkjaviðskipti. Eiginlega er verið að fara gegn ákvæðinu um einkarétt ÁTVR á afhendingu áfengis á Íslandi.“ Til þess að taka á þessu máli væri langbest að löggjafinn veitti skýrari svör. Mín skoðun er að við eigum að heimila slíka netverslun innanlands og hún ætti ekki að vera bundin við að vera milli ríkja.“

Bjarni sagði að það væri þannig best að Alþingi hyggi á hnútinn, kæmi inn í nútímann og viðurkenndi að netverslun með áfengi væri sjálfsagt mál.

Best að leyfa áfengisauglýsingar innan skynsamlegs ramma
Ólafur spurði út í bann við áfengisauglýsingum, sem gildir í orði kveðnu, en áfengisauglýsingar eru engu að síður víða, í erlendum miðlum sem Íslendingar hafa greiðan aðgang að, og á samfélagsmiðlum. Bjarni var spurður hvort ekki væri ástæða til að setja reglur um áfengisauglýsingar, í stað þess að láta eins og þær væru ekki til. „Mér finnst það. Ég ætla ekki að gerast talsmaður þess að auglýsingar séu alfarið frjálsar, ég held að það séu gild rök fyrir að það sé ákveðinn rammi utan um slíkar auglýsingar og sérstakt tillit þurfi að taka til barna. Að öðru leyti er þetta löngu tapað stríð, þótt ekki sé nema vegna þess að við höfum aðgengi að svo mörgum alþjóðlegum miðlum,“ sagði fjármálaráðherra.

Bjarni sagði að Íslendingar væru neytendur að áfengisauglýsingum hvað sem liði innlendu löggjöfinni. „Mín skoðun er sú að það væri langbest að koma þarna líka inn í nútímann, setja þessu eitthvert gott regluverk og leyfa þessu að gerast innan einhvers skynsamlegs ramma, frekar en að horfa í hina áttina þegar allar 0,0% auglýsingarnar eru birtar.“

Bjarni og Ólafur ræddu einnig vaxtamál, skatta, báknið burt og einföldun regluverks, vinnumarkaðsmál og samkeppnisrekstur ríkisfyrirtækja. Hægt er að smella á spilarann hér að ofan til að sjá allt samtalið.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning