FA fagnar tillögum um breytta utanríkisþjónustu

04.09.2017
Skýrslan var kynnt hagsmunaaðilum í atvinnulífinu á föstudag.

Félag atvinnurekenda fagnar nýútkominni skýrslu starfshóps utanríkisráðherra, Utanríkisþjónusta til framtíðar: Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi, sem kom út síðastliðinn föstudag. Þar er lögð áhersla á aukið samráð, samstarf og þjónustu við atvinnulífið og hafa skýrsluhöfundar gert nokkrar tillögur FA að sínum.

Verklagi við innleiðingu EES-reglna breytt
Þar á meðal er tillaga félagsins um að verklagi við innleiðingu EES-reglna í íslenskan rétt verði breytt til að stuðla að einföldun regluverks. Í tillögu nr. 34 (af 150 í skýrslunni) segir: „Unnið verði að því að innleiða reglur þannig að þær verði minna íþyngjandi fyrir íslenska hagsmunaaðila. Komið verði upp verklagi þar sem tilgreint verði í greinargerðum með frumvörpum til innleiðingar EES-reglna hvaða ákvæði varði reglurnar beinlínis, hvaða ákvæði gangi lengra en þær kveða á um og þá af hvaða ástæðum og hvaða svigrúm sé til að haga innleiðingu þannig að hún verði minna íþyngjandi.“

Greining á hagsmunum á mótunarstigi EES-reglna
Skýrsluhöfundar taka einnig undir þá tillögu FA að kröftum utanríkisþjónustunnar verði fremur beint að því að hafa áhrif á EES-reglur á mótunarstigi en að endalausum eltingaleik við tilskipanahalann og að berjast í vonlausum dómsmálum fyrir EFTA-dómstólnum. Þannig segir í tillögu 32 í skýrslunni: „Hagsmunagæsla Íslands í EES-samstarfinu verði efld með það að meginmarkmiði að hafa áhrif á hagsmunamál á mótunarstigi ákvarðana í stofnunum ESB. Í því skyni verði viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins styrkt til að sinna auknum verkefnum við að greina hagsmunamál snemma á mótunarstigi og að verkferlar um samstarf ráðuneytanna um mótun á afstöðu Íslands til tillagna um nýja Evrópulöggjöf verði endurskoðað- ir til að stuðla að því markmiði. Jafnframt verði aukið formlegt samráð við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og borgarasamtök. “

Aukin áhersla á fríverslunarsamninga
FA hvatti utanríkisráðuneytið ennfremur til að setja meiri kraft í endurnýjun fríverslunarsamninga og gerð nýrra samninga, í samfloti við EFTA-ríkin eða tvíhliða. Í tillögum 17-20 í skýrslunni er áhersla lögð á gerð og rekstur fríverslunarsamninga og ríkara samráð við hagsmunaaðila.

„Þessar tillögur og margar fleiri í skýrslu starfshóps ráðherra eru til marks um aukna áherslu á samstarf og þjónustu við atvinnulífið og við fögnum því mjög,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Skilvirk utanríkisþjónusta skiptir mjög miklu máli við að afla íslenskum útflutningi nýrra markaða og skapa sem hagstæðust samkeppnisskilyrði fyrir íslensk fyrirtæki.“

Skýrsla starfshóps utanríkisráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning