FA krefst endurgreiðslu útboðsgjaldsins

23.03.2015

Innfluttar skinkurFélag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu bréf og farið fram á að útboðsgjald á tollkvóta fyrir búvörur, sem Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt í andstöðu við stjórnarskrá, verði endurgreitt þeim fyrirtækjum sem ekki hafa þegar nýtt innflutningsheimildir sínar.

Þótt Héraðsdómur teldi útboðsgjaldið ólöglegt, taldi hann ekki ástæðu til að endurgreiða fyrirtækjunum sem stefndu ríkinu, vegna þess að þau hefðu þegar velt gjaldinu út í verðlagið, á neytendur. Útboðsgjaldið er greitt fyrirfram einu sinni á ári. Því er ljóst að mörg fyrirtæki hafa ekki fullnýtt innflutningsheimildir sínar, sem þau hafa þegar greitt útboðsgjald fyrir. Í upphafi árs greiddu fyrirtæki þannig um 300 milljónir króna fyrir „tollfrjálsan“ innflutningskvóta á vörum frá ESB, en eingöngu lítill hluti þeirra hefur verið fluttur inn og seldur í verslunum.

Í bréfi FA til ráðuneytisins segir: „Ljóst er að fjöldi innflytjenda hefur greitt fyrir innflutningsheimildir vegna ársins 2015 án þess að þessar heimildir hafi þegar verið nýttar. Með hliðsjón af framangreindum dómsniðurstöðum er ljóst að þessi gjöld ber að greiða til baka án frekari málalenginga. Allar tafir á endurgreiðslu munu óhjákvæmilega valda neytendum frekara fjárhagslegu tjóni með áframhaldandi ólögmætri háttsemi íslenzka ríkisins. Væri ráðuneytið, með hliðsjón af framangreindu, að valda því tjóni af ásetningi, verði gjöldin ekki endurgreidd hið fyrsta. Slíkt er bersýnilega ótækt.

Með vísan í framangreint ber ráðuneytinu að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum öll þau útboðsgjöld sem þeir hafa greitt fyrir ónýttar innflutningsheimildir. Er gerð krafa þess efnis að þessi endurgreiðsla fari tafarlaust fram og að ráðuneytið staðfesti þá áætlan sína fyrir 25. marz nk.“

Hér er um að ræða umtalsverða hagsmuni fyrir neytendur. Útboðsgjaldið fyrir kíló af innfluttu kjúklingakjöti er þannig 618 krónur, fyrir kíló af osti 445 krónur og fyrir kíló af nautakjöti 521 króna, svo dæmi séu nefnd.

Bréf FA til atvinnuvegaráðuneytisins

Viðtal við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í fréttum Bylgjunnar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning