Frumvarp um tollkvóta nær ekki markmiðum ráðherra

29.11.2019

Félag atvinnurekenda hefur skilað atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um nýtt frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingar á úthlutun tollkvóta fyrir búvörur. Fulltrúar FA fylgdu umsögninni eftir á fundi atvinnuveganefndar á þriðjudag.

Ráðherra hefur sagt að tilgangur frumvarpsins sé að neytendur njóti „aukins vöruúrvals, lægra vöruverðs og aukinnar samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur.“ Þetta telur FA gott markmið, en dregur stórlega í efa að ákvæði frumvarpsins hafi í för með sér að því verði náð.

Verðlækkun til neytenda aðeins tímabundin
Í fyrsta lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að haldið verði áfram að bjóða út tollkvóta, en með breyttri aðferð. FA telur að með hinni nýju aðferð sé líklegt að í fyrstu tollkvótaútboðunum lækki það verð, sem innflytjendur greiða fyrir tollkvóta. Ávinningur fyrirtækja og neytenda af slíkri lækkun sé þó eingöngu tímabundinn. Til lengri tíma hafi útboðsgjaldið, sem innheimt er fyrir innflutningsheimildirnar, tilhneigingu til að leita jafnvægis í tölu sem er rétt undir kostnaði innflytjenda af því að flytja viðkomandi vöru inn á fullum gjöldum. „Engin ástæða er til að ætla að langtímaþróunin verði önnur, þótt breytt útboðsaðferð verði notuð. Þannig mun áframhaldandi uppboð á tollkvóta áfram éta upp smám saman ávinning fyrirtækja og neytenda af því tollfrelsi sem samið hefur verið um í alþjóðasamningum og stjórnmálamenn halda gjarnan fram þegar vel liggur á þeim að eigi að stuðla að lægra vöruverði og meiri samkeppni,“ segir í umsögn FA. Þá bendir félagið á að útboð á tollkvóta brjóti gegn samningi Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæmar tollaívilnanir.

Hvernig á að bregðast við skorti?
Í öðru lagi á að afnema heimild landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til að gefa út svokallaðan skortkvóta, opna innflutningskvóta á lægri tollum, ef skortur er á tilteknum búvörum á hæfilegu verði. Þess í stað er í frumvarpinu tæmandi upptalning á vörum, sem fluttar skulu inn á lægri tollum á tilteknum tímabilum og er þá stuðst við þá opnu tollkvóta sem gefnir hafa verið út undanfarin ár. Þetta telur FA að sumu leyti ekki fráleita tillögu, þar sem stjórnsýslan við útgáfu opinna tollkvóta hafi verið meingölluð. Þeim athugasemdum sem FA gerði við drög atvinnuvegaráðuneytisins að frumvarpinu, um að þau myndu óbreytt þrengja mjög að innflutningi kjöts þar sem ekki væri gert ráð fyrir neinum opnum tollkvóta fyrir kjötvörur, var mætt að hluta og er nú gert ráð fyrir að ráðherra gefi út opinn tollkvóta fyrir 400 tonn af svínasíðum árlega. FA telur hins vegar ljóst að tollkvótar samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins muni ekki rúma þörf næstu ára fyrir innflutning á nautakjöti og alifuglakjöti og leggur til að gefinn verði út a.m.k. 200 tonna opinn tollkvóti fyrir hvora kjöttegund. FA telur jafnframt að hæpið sé að miða við útgáfu opinna tollkvóta undanfarin ár, þar sem þeir hafi byggst á mjög þröngri túlkun á núgildandi lögum.

Fá innlendir framleiðendur frítt spil?
Í þriðja lagi telur FA að misráðið sé að fella út úr búvörulögum alla möguleika á að lækka tolla ef skortur er á tilteknum vörum. Það geri ómögulegt að bregðast við skorti sem ekki sé árstíðabundinn og til kominn til dæmis vegna náttúruhamfara, uppskerubrests eða af mannavöldum. Sem dæmi um hið síðastnefnda rifjar FA upp þegar afurðastöðvar fluttu út lambakjöt og drógu þannig úr framboði, sem leiddi til hærra verðs innanlands, jafnframt áform Mjólkursamsölunnar um að selja smjör ódýrt til útlanda til að halda uppi verðinu á því innanlands. „Ef enginn möguleiki er á að bregðast við skorti, sem þannig er til kominn, gefur það innlendum framleiðendum frítt spil um að stýra framboðinu og ná því verði sem þeim sýnist út úr verzluninni og neytendum, sérstaklega ef lítill eða enginn tollfrjáls innflutningskvóti er fyrir hendi á viðkomandi vöru til að viðhalda einhverri samkeppni frá innflutningi,“ segir í umsögn FA.

Vill Alþingi að skortur komi reglulega upp?
Þar segir jafnframt: „Spurningin sem Alþingi þarf að svara er sú, hvort það kjósi að reglulega komi upp tilvik þar sem framboð af búvöru er langtum minna en eftirspurn, sem veldur verðhækkunum og gengur þvert gegn sjónarmiðum um fæðuöryggi. Eins og þetta frumvarp er gert úr garði, er nokkuð öruggt að slík tilvik munu koma upp.“

Umsögn FA um frumvarpið

Nýjar fréttir

Innskráning