Lækkun blómatolla ein leið til að hemja verðbólguna

08.02.2022
Snemma í desember kostaði stykkið af túlipönum í matvörubúð í Reykjavík 470 krónur …

Félag atvinnurekenda hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra og matvælaráðherra nýja ítrekun á erindi sínu til ráðuneytanna þar sem farið er fram á endurskoðun tolla á blómum. Í erindinu er meðal annars rökstutt að lækkun blómatolla væri ein leið stjórnvalda til að fást við gífurlegar verðhækkanir á alþjóðamörkuðum, sem hafa stuðlað að hæstu verðbólgu í áratug. FA bendir á nokkrar leiðir til að lækka blómatolla án þess að það ógni rekstrargrundvelli innlendra blómaframleiðenda.

Gífurlega háir tollar eru lagðir á innflutt blóm og stuðla að alltof háu verði á blómum. Blómatollar samanstanda annars vegar af 30% verðtolli og hins vegar stykkjatolli sem leggst á hverja einustu plöntu, sama hvort um er að ræða pottablóm eða afskorin blóm. Þannig leggst á flest innflutt pottablóm 30% verðtollur og 200 króna stykkjatollur. Ef innflutningsverð pottaplöntu er 300 krónur ber hún 290 krónur í toll og innflutningsverðið tvöfaldast því sem næst. Á afskorin blóm leggst oftast 30% verðtollur og auk þess 95 króna stykkjatollur á hvert blóm. Algengt er að það tvö- til þrefaldi innflutningsverðið. Verðlag á blómum hér á landi er sem því nemur hærra en í nágrannalöndunum.

Rakið er í erindi FA til ráðherranna Bjarna Benediktssonar og Svandísar Svavarsdóttur að ráðuneytin tóku vel í upphaflegt erindi FA og 25 fyrirtækja í blómaverslun í október 2019 og hafin var vinna við endurskoðun á blómatollum. Í júní 2020 fékk félagið þau svör að niðurstaða yrði komin í málið fyrir lok þess mánaðar. Síðan hefur hins vegar ekkert af málinu frést og var síðasta erindi FA til ráðuneytanna, sem sent var fyrir réttu ári, ekki svarað.

Tollalækkun þarf ekki að ógna innlendri framleiðslu
Í hlaðvarpsþætti FA, „Kaffikróknum“, sem sýndur var í beinni útsendingu á Facebook 15. september sl. var Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra spurður út í vinnu ráðuneytanna við blómatolla og tiltók þá dæmi frá Noregi. Fjármálaráðherra sagði að afleiðingar tollalækkunar í Noregi hefðu verið ófyrirséðar og margir tapað starfi sínu við blómaframleiðslu vegna ódýrs innflutnings.

… á sama tíma og stykkið kostaði 74 krónur í matvöruverslun í Kaupmannahöfn.

Að mati FA þarf ekki að hafa áhyggjur af því að umbætur á tollaumhverfi blómaverslunar muni kollvarpa innlendri framleiðslu. Fyrir því eru m.a. eftirfarandi ástæður, sem tilgreindar eru í erindinu til ráðuneytanna:

  • Innlendir blómaframleiðendur framleiða ekki nema fáeinar tegundir af blómum í einhverju magni sem máli skiptir. Háir verndartollar eru lagðir á alls konar blóm sem eru alls ekki ræktuð á Íslandi og þeir tollar vernda þar af leiðandi ekki neitt. Fella má niður þessa tolla án þess að það ógni rekstrargrundvelli hinna fáu innlendu ræktenda. Sú niðurfelling myndi hins vegar gagnast vel tugum fyrirtækja í blómaverslun og gera þeim kleift að bjóða neytendum breiðara úrval á betra verði.
  • Eins og nefnt var í fyrri erindum FA hafa tollkvótar fyrir blóm ekki tekið breytingum í áratugi, þrátt fyrir stækkandi markað. Vaxandi eftirspurn þýðir að gjaldið, sem innflytjendur greiða fyrir kvótana í útboðum, hefur í flestum tilvikum hækkað undanfarin fjögur ár eins og sjá má á línuritinu hér að neðan. Oft er útboðsgjaldið farið að slaga upp í stykkjatollinn á vörunni, þannig að ávinningurinn af því að flytja vöruna inn á tollkvóta er minni en ella. Ein leið í málinu gæti verið að stækka tollkvótana þannig að þeir nýttust blómaversluninni betur á „stóru blómadögunum“ á fyrri hluta ársins; bóndadegi, konudegi og Valentínusardegi. Undanfarin ár hafa innlendir blómaframleiðendur engan veginn annað eftirspurn fyrir þessa stóru blómasöludaga, blóm hafa verið skömmtuð til blómaverslana og verðið verið alltof hátt. Stækkun tollkvóta gæti komið betra jafnvægi á markaðinn, en innlendir framleiðendur engu að síður verið öruggir með að koma sinni vöru út.
  • Framboð á innlendum blómum er mismunandi eftir árstímum. Svo dæmi sé tekið, koma íslenskir túlipanar ekki á markað fyrr en skömmu fyrir jól og eru fáanlegir þar til um páska. Vel mætti fara svipaða leið og varðandi tolla á útiræktuðu grænmeti; þeir eru í gildi á ákveðnum tímabilum á meðan innlend framleiðsla er á markaði en þegar ekkert framboð er af innlendri vöru eru engir tollar á innflutningi.

„Miklar verðhækkanir eru nú á alþjóðamörkuðum vegna vandkvæða í alþjóðlegum aðfangakeðjum, sem tengjast yfirleitt kórónuveirufaraldrinum. Blómamarkaðurinn er þar ekki undanskilinn. FA hefur séð dæmi um allt að 72% verðhækkanir á innfluttum blómum á undanförnu ári. Við það bætast miklar hækkanir á flutningskostnaði af völdum faraldursins. Þessar hækkanir ýta eins og aðrar undir verðbólguna, sem hefur ekki verið hærri í áratug. Að mati FA er skylda stjórnvalda að leita allra leiða til að vinna gegn verðhækkunum og verðbólgu. Lækkun blómatolla er ein sem blasir við,“ segir í erindi FA til ráðherranna.

Bréf FA til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra

 

Nýjar fréttir

Innskráning