Tækifæri til að útvíkka fríverslun með búvörur við Bretland glataðist

07.06.2021

Félag atvinnurekenda fagnar því að náðst hafi varanlegur samningur um fríverslun á milli Bretlands og EES-EFTA-ríkjanna, Íslands þar á meðal. Félaginu þykir hins vegar miður að vegna harðrar andstöðu hagsmunaaðila í landbúnaði hafi stjórnvöld kastað frá sér tækifæri til að útvíkka fríverslun með búvörur við Bretland.

Að mati FA var brýnt að ná fríverslunarsamningi við Bretland til að varðveita til frambúðar þau viðskiptakjör sem giltu í viðskiptum Bretlands og Íslands þegar fyrrnefnda ríkið var enn aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í vöruviðskiptum gildir það í öllum meginatriðum samkvæmt samningnum. Miklu skipti að einnig náðist samkomulag um að íslenskir útflytjendur matvæla til Bretlands sitji við sama borð og keppinautar á EES hvað varðar heilbrigðisskoðanir á landamærum, þótt flestir hefðu eflaust fremur kosið óbreytt ástand þar sem vörur voru í frjálsu flæði.

Bretar vildu meiri fríverslun
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir að tækifæri til að útvíkka fríverslun með búvörur við Bretland hafi hins vegar glatast. „Það er ljóst að bresk stjórnvöld höfðu áhuga á að auka talsvert fríverslun með búvörur. Þau buðu umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir undanrennuduft sem hefði átt að vera augljóst hagsmunamál íslenskra mjólkurbænda og -framleiðenda, enda hefði kvótinn nýst nýrri skyrverksmiðju Íseyjar skyr í Wales og hefði verið hægt að framleiða skyrið úr íslensku hráefni. Bretar fóru á móti fram á aukna tollkvóta fyrir osta og kjötvörur, miklu minni að umfangi en þeir tollkvótar sem Íslandi stóðu til boða í Bretlandi. Vegna harðrar andstöðu hagsmunaaðila í landbúnaði við aukinn tollfrjálsan innflutning var þessu tækifæri fórnað og samningurinn kveður eingöngu á um að þeir gagnkvæmu tollkvótar, sem voru í bráðabirgðasamningi Íslands og Bretlands frá 2019, haldi sér,“ segir Ólafur.

Samkvæmt samningnum geta íslensk fyrirtæki þannig flutt 692 tonn af lambakjöti út tollfrjálst til Bretlands og 329 tonn af skyri. Á móti fá bresk fyrirtæki tollkvóta inn á íslenska markaðinn fyrir 19 tonn af hvers konar osti, 11 tonn af ostum með verndað afurðaheiti og 18,3 tonn af unnum kjötvörum. Þessir kvótar byggjast á raunverulegum viðskiptum ríkjanna árin áður en bráðabirgðasamningurinn var gerður. Tollkvótarnir eru m.ö.o. 1.021 tonn á móti 48,3 tonnum.

Andstaðan við innflutning blindar menn fyrir tækifærunum
Ólafur segir það vekja nokkra furðu að hagsmunaaðilar í landbúnaði hafi lagst gegn víðtækari fríverslun með búvörur við Bretland í ljósi þeirra augljósu tækifæra sem tollkvóti fyrir undanrennuduft hefði falið í sér. „Mjólkursamsalan hefur kvartað undan því að eiga erfitt með að koma undanrennuduftinu í verð á erlendum mörkuðum. Með þessu hefði verksmiðja MS í Bretlandi haft aðgang að tollfrjálsu íslensku hráefni. Andstaðan við aukinn tollfrjálsan innflutning í litlu magni virðist hafa blindað menn fyrir þessum tækifærum. Svo spilar það kannski inn í að á íslenska markaðnum er MS í mikilli óskastöðu varðandi sölu á undanrennudufti; í skjóli undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum er fyrirtækið í einokunarstöðu og hefur enga innlenda samkeppni þegar kemur að sölu á mjólkur- og undanrennudufti. Í skjóli tollverndar hefur MS enga erlenda samkeppni heldur og innlend matvælafyrirtæki, sem þurfa að nota undanrennu- og mjólkurduft í framleiðslu sína, eiga engan annan kost en að kaupa af MS á miklu hærra verði en erlendir viðskiptavinir MS greiða.“

Ólafur segir að ætla megi að samningstilboð Breta hafi falið það í sér að fyrir hvert kíló af búvörum sem flutt yrði tollfrjálst til Íslands hefði íslenskur landbúnaður fengið að flytja út margfalt magn til Bretlands. „Hagsmunamat Bændasamtakanna virðist hins vegar vera í þá áttina að það sé betra að þvinga íslenska neytendur til að kaupa þessi kíló á tollvernduðum fákeppnismarkaði en að selja þau erlendis á virkum samkeppnismarkaði.“

Bændasamtökin umsagnaraðili?
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Bændasamtökin hafi fengið upplýsingar um gang viðræðnanna við Bretland og tækifæri til að koma á framfæri afstöðu sinni til einstakra atriða. „Því er ósvarað hvers vegna Bændasamtökin eru umsagnaraðili í þessum samningaviðræðum en ekki t.d. fulltrúar verslunarinnar, neytenda eða Samkeppniseftirlitið. Þessi aðkoma sérhagsmuna umfram hina almennu hagsmuni vekur sérstaka furðu,“ segir Ólafur.

FA getur að sögn Ólafs út af fyrir sig tekið undir það sem segir í umfjöllun utanríkisráðuneytisins um samninginn, að hann stækki varanlega Evrópumarkað  fyrir íslenskar útflutningsvörur því að tollkvótarnir fyrir íslenskar afurðir bætist við þá tollkvóta sem útflytjendur hafa í ríkjum Evrópusambandsins. „Sú stækkun er þó eingöngu varanleg ef íslensk stjórnvöld láta ekki undan þrýstingi hagsmunaafla í landbúnaðinum á að tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins verði sagt upp. Eins og málalyktir varðandi samninginn við Bretland sýna, virðist vera vaxandi andstaða hjá hagsmunaöflum í landbúnaði við að leyfa vindum fríverslunar og samkeppni að blása.“

 

Nýjar fréttir

Innskráning