Félag atvinnurekenda hefur sent ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara erindi og farið fram á að hún endurskoði ákvörðun sína frá 13. nóvember, um að hafna því að lækka tolla á túlipönum vegna skorts. Samkvæmt könnun félagsins er verð á túlipönum nú þrefalt til fimmfalt hærra en í nágrannalöndunum og framboð lítið sem ekkert.
FA fór fram á slíka tollalækkun 9. október og vísaði til þess að ekkert framboð væri af innlendum túlipönum, en nægt framboð í nágrannalöndunum. Að lokinni fimm vikna umhugsun komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri skortur á túlipönum og hafnaði beiðninni. FA fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og fékk hann 18. nóvember.
Félagið sendi nefndinni nýtt erindi í gær og er það svohljóðandi:
„Við þökkum rökstuðninginn sem okkur barst 18. nóvember sl. fyrir ákvörðun nefndarinnar frá 13. nóvember, um að hafna því að lækka tolla á túlipönum tímabundið vegna skorts. Niðurstaða nefndarinnar var að ekki væri skortur á túlipönum.
Við getum hvorki fallist á niðurstöðuna né rökstuðninginn. Niðurstaðan kemur neytendum spánskt fyrir sjónir – túlipanar fást almennt ekki í verslunum, hvorki innlendir né innfluttir og hafa ekki gert síðan FA sendi beiðni um niðurfellingu tolla hinn 9. október síðastliðinn. Lausleg könnun FA í stórmörkuðum og blómaverslunum sýnir að framboð á túlipönum er áfram lítið sem ekkert, nú tveimur vikum eftir að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri skortur á vörunni.
Sú röksemd nefndarinnar að nú stefni í meiri innlenda framleiðslu á túlipönum en í fyrra er markleysa, vegna þess að hún vísar til framleiðslu, sem ætlað er að koma á markað rétt fyrir jól og hefur ekkert með framboðið á markaðnum í október eða nóvember að gera. FA hafa auk þess borist upplýsingar um að hjá a.m.k. einum innlendum framleiðanda stefni í lélega uppskeru, rétt eins og í fyrra, og er þegar af þeim sökum ástæða til að endurskoða ákvörðun nefndarinnar.
Sú röksemd nefndarinnar að leiðandi dreifingaraðili hafi átt einhverjar birgðir af túlipönum (væntanlega innfluttum) sem hann gat ekki selt vegna verðs, er ekki röksemd fyrir því að hafna tollalækkun, heldur þvert á móti fyrir því að tollarnir verði lækkaðir. FA leyfir sér að minna á að í 65. gr. búvörulaga er kveðið á um að ráðherra skuli við ákvörðun um lækkun tolla horfa til þess hvort „nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar.“ Gífurlegir tollar á innflutta túlipana, 95 krónur á hvert stykki auk 30% verðtolls, hamla því að varan fáist á hæfilegu verði.
FA hefur fengið nokkrar ábendingar um að túlipanar séu til í verslunum og hafa þær flestar vísað á verslanir Hagkaupa. Þar hafa fengist fáein búnt af túlipönum, sem eru seld á 2.999 krónur. Það er mjög langt frá því að vera „hæfilegt verð“. Þetta eru blóm sem flutt eru inn á fullum tollum.
Það má raunar fylgja sögunni að eitt búnt af innfluttum, bleikum túlipönum hefur verið sölu í Hagkaupum í Kringlunni í heila viku, en ekki selst. Það var orðið svolítið ræfilslegt í morgun (sjá mynd). Engan þarf að undra að blóm seljist ekki á þessu verði.
FA gerði snögga, óformlega könnun á verði túlipana í nokkrum evrópskum borgum í morgun. Niðurstaðan er í töflunni hér að neðan. Það skal tekið fram að í öllum þessum borgum var nægt framboð af túlipönum.