Morgunverðarfundur 13. mars: Fríverslunarsamningur við Indland – hver eru tækifærin fyrir íslensk fyrirtæki?

06.03.2024

EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu, og Indland hafa lokið gerð fríverslunarsamnings og stefnt er að undirritun á næstu dögum. Íslensk-indverska viðskiptaráðið (ÍIV) og Félag atvinnurekenda efna til kynningar á samningnum og þeim tækifærum sem í honum felast á morgunverðarfundi miðvikudaginn 13. mars. Fundurinn er haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda, Skeifunni 11 (sjá leiðbeiningar að neðan), og stendur frá kl. 8.30 til 9.45.

Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, mun opna fundinn. B. Shyam, sendiherra Indlands, flytur ávarp. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Þórður Jónsson aðalsamningamaður munu síðan kynna fríverslunarsamninginn og þau tækifæri sem í honum felast fyrir íslensk fyrirtæki og svara spurningum fundarmanna.

17 ára vinna að baki
Samningaviðræður Indlands og EFTA um fríverslunarsamning hafa staðið í 17 ár og hafa 20 lotur samningaviðræðna átt sér stað. Viðskipti EFTA-ríkjanna og Indlands námu um 5,5 milljörðum evra á síðasta ári, eða um 825 milljörðum króna. Útflutningur EFTA til Indlands nam 2,3 milljörðum evra en innflutningur frá Indlandi 3,2 milljörðum evra.

Indland hefur einnig átt í fríverslunarviðræðum við m.a. Evrópusambandið, Bandaríkin, Kanada og Bretland en ekki er komin niðurstaða í þær viðræður.

Uppfært 11. mars: Fríverslunarsamningurinn hefur nú verið undirritaður, sjá fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Morgunverðarfundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Léttur morgunverður er í boði. Skráning hér að neðan er nauðsynleg.

Skráning á morgunverðarfund um fríverslunarsamning EFTA og Indlands

Nýjar fréttir

1. maí 2024

Innskráning