Frumvarpi um einföldun leyfisveitinga fagnað

25.04.2016

ReglubyrdiFélag atvinnurekenda fagnar boðuðu frumvarpi forsætisráðherra um einföldun leyfisveitinga vegna atvinnurekstrar og fækkun leyfa. Frumvarpið er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks atvinnulífsins, en FA hefur lengi barist fyrir því að reglugerðafrumskógur sá sem þarf að ferðast um til að stofna fyrirtæki verði grisjaður.

Í endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, sem lögð var fram fyrir helgi, er viðbót frá forsætisráðherra um fyrirhugað frumvarp um leyfisveitingar. Þar kemur fram að frumvarpinu sé ætlað að fækka þeim tilvikum þar sem þörf sé á leyfi stjórnvalda ti að hefja atvinnustarfsemi, „annaðhvort með þeim hætti að ekki þurfi leyfi eða að í stað leyfis komi tilkynning til stjórnvalda um að fyrirtæki hafi hafið starfsemi.“

Þetta er í samræmi við það sem Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins, boðaði á fundi FA um einföldun regluverks atvinnulífsins, en þar sagði hann að rökstyðja þyrfti sérstaklega að hafa með leyfisveitingum fyrirfram takmörkun á því að opna til dæmis veitingastað, sjoppu eða bílaleigu. Í staðinn ættu fyrirtæki að geta tilkynnt að þau hygðust hefja rekstur og tilteknum skilyrðum hefði verið fullnægt. Í framhaldinu gætu stjórnvöld svo kallað eftir upplýsingum ef þörf væri á.

Hugað að skilyrðum, gögnum og kostnaði
Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að markmiðið með frumvarpinu sé að huga að skilyrðum í leyfum, gagnaöflun vegna leyfisumsókna og kostnaði vegna umsókna. FA hefur bent á að það geti verið alltof flókið að stofna lítið fyrirtæki vegna íþyngjandi kvaða í lögum og reglugerðum. Fyrirtæki þurfi jafnvel að þvælast á milli stofnana og fá vottorð frá einni til að geta fengið vottorð frá annarri. Full ástæða sé til að einfalda ferlið og horfa á heildarmyndina.

„Við eigum eftir að sjá frumvarpið þegar það kemur fram en þessi áform eru mjög ánægjuleg og gott að eitthvað er að gerast í þessum málum,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Við vonum að það verði góð samstaða á Alþingi um þetta frumvarp og fleiri mál, sem snúa að bættum rekstrarskilyrðum fyrirtækjanna í landinu.“

Viðtal við Ólaf Stephensen um málið á Bylgjunni

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning