Frystum ferðamennina

18.10.2018

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 18. október 2018.

Viðbrögð við dómi Hæstaréttar frá því í síðustu viku, um að bann við innflutningi á ferskum búvörum brjóti í bága við EES-samninginn, hafa um margt verið sérkennileg. Enginn hörgull er á spádómum um að innflutningur á fersku og ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk muni hafa grafalvarlegar afleiðingar á heilsu jafnt dýra og manna.

Spámönnunum virðist ókunnugt um að matvælaeftirlit í öðrum ríkjum EES lýtur sömu reglum og er jafngott eða betra en hér á landi og að byggt hefur verið upp öflugt viðvörunar- og viðbragðskerfi vegna dýrasjúkdóma og matarsýkinga á EES. Þeir virðast líka hafa misst af því að í Noregi, þar sem innflutningur ferskvöru var leyfður um leið og Ísland hefði átt að gera það, hefur ekki orðið vart neinna áhrifa á heilsu dýra eða manna.

Hitt er enn sérkennilegra að þeir sem hafa þessar hrakspár í frammi sleppa því alveg að ræða hvernig eigi að fara með þá hættu, sem bæði fólki og dýrum stafar af margföldun ferðamannastraums til Íslands og ferðalaga Íslendinga til útlanda á undanförnum árum. Ótal vísindamenn, þar á meðal sérfræðingar sem unnu skýrslu fyrir Félag atvinnurekenda um heilbrigðisáhættu vegna matvöruinnflutnings, að viðbættum bæði núverandi og fyrrverandi yfirdýralækni, eru sammála um að smithætta er langtum meiri vegna aukinna ferðalaga og samskipta milli landa en vegna löglega innflutts kjöts.

Af hverju þessi tvískinnungur? Af hverju heimta Bændasamtökin, Miðflokkurinn og allir hinir heimsendaspámennirnir ekki að tekið sé fyrir ferðamannastrauminn eða allir séu sendir í bað eða frystiklefa áður en þeir koma inn í landið og látnir henda nestinu sínu?

Er það kannski af því að krafan um að ferskvörunni skuli ekki hleypt inn er bara gamaldags tæknileg viðskiptahindrun, hugsuð til að takmarka samkeppni við innlenda framleiðendur?

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning