Fundað um umbætur í innkaupum Landspítalans

08.02.2017

Félag atvinnurekenda stóð í morgun fyrir fundi með fulltrúum Landspítalans annars vegar og lyfja- og heilbrigðisvörufyrirtækja í félaginu hins vegar um innkaupamál Landspítalans. Til fundarins var efnt í framhaldi af því að Landspítalinn birti yfirlýsingu um umbætur í innkaupaháttum sínum, eftir að Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á þeim.

Jakob Valgeir Finnbogason, deildarstjóri innkaupadeildar spítalans, og Baldvin Hafsteinsson lögfræðingur fóru á fundinum yfir þær aðgerðir og viðbrögð spítalans sem kveðið er á um í yfirlýsingunni.

  • Innleidd verður samkeppnisréttaráætlun fyrir spítalann. Tryggt verður að allir stjórnendur og starfsmenn sem hafa innkaupaheimildir verði að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi Landspítala í innkaupum á heilbrigðisvörum.
  • Tryggt verður að viðkvæmar upplýsingar sem spítalinn býr yfir um birgja, tilboð þeirra eða viðskiptaskilmála, berist ekki til annarra birgja eða keppinauta fyrir tilstuðlan spítalans. Hnykkt verður á þessu í nýrri gæðahandbók innkaupa spítalans.
  • Landspítalinn mun beita verðfyrirspurnum með reglulegum hætti vegna innkaupa sem er undir viðmiðunarfjárhæðum laga um opinber innkaup. Leitast skal við að senda verðfyrirspurnir til allra þekktra birgja sem bjóða viðkomandi vöru og/eða þær verða birtar í opinni gátt á vef spítalans.
  • Við innkaup á heilbrigðisvörum, tækjum og búnaði fyrir gjafafé skal eftir fremsta megni reynt að fylgja sambærilegum ferlum og við önnur innkaup, með það að markmiði að ná sem hagkvæmustum innkaupum. Þannig skal almennt beita verðfyrirspurnum í innkaupum á slíkum vörum.
  • Svokallaðar huglægar kröfur í útboðum (sem varða matskennda þætti) hafa verið gerðar hlutlægar eins nákvæmlega og unnt er. Landspítalinn lýsir sig meðvitaðan um þá hættu sem felist í vörumerkjatryggð fyrir samkeppni á markaði og jafnræði bjóðenda.
  • Spítalinn mun innleiða nýjar innkaupareglur og draga þær saman í sérstaka gæðahandbók innkaupa. Hún verður aðgengileg öllum hagsmunaaðilum.
Jakob Valgeir Finnbogason, deildarstjóri innkaupadeildar, og Baldvin Hafsteinsson, lögfræðingur Landspítalans, sátu fyrir svörum.

FA hefur fagnað þessari yfirlýsingu og talið að með innleiðingu hennar séu stigin stór skref í rétta átt í innkaupamálum spítalans. Ætlunin er að ný samkeppnisréttaráætlun Landspítalans verði innleidd í mars. Öll ákvæði yfirlýsingar spítalans verði hins vegar komin að fullu til framkvæmda í júní. Aðildarfyrirtæki FA höfðu tækifæri á fundinum til að koma að fyrirspurnum og ábendingum um innleiðingu þeirra umbóta, sem spítalinn hefur boðað.

Miklar og gagnlegar umræður urðu á fundinum og er það von FA að upplýsingaskipti sem þessi stuðli að betri framkvæmd opinberra innkaupa og virkri samkeppni

Nýjar fréttir

Innskráning