Hömlur á skaðaminni vörur styrkja stöðu sígarettunnar

11.05.2017

Félag atvinnurekenda hefur skilað Alþingi umsögn um rafrettufrumvarp heilbrigðisráðherra. Þar er meðal annars bent á að sú leið að leggja rafrettur og sígarettur að jöfnu og setja sömu hömlur á notkun, sölu og markaðssetningu rafrettna, styrki stöðu sígarettunnar sem sé miklu meiri skaðvaldur.

„Erfitt er að sjá hvernig neytandi á að fá vitneskju um og frekari upplýsingar um rafsígarettur þegar bæði auglýsinga- og sýnileikabann gilda um vöruna,“ segir í umsögn FA.  „Hægt er að taka undir það að gæta beri að því að varan sé aðallega notuð í þeim tilgangi að hætta að reykja. Hins vegar verður reykingafólk að geta fengið upplýsingar um vöruna svo það a.m.k. íhugi að skipta yfir í skaðlausari vöru en sígarettuna. Aukin neysla rafrettna hlýtur að teljast jákvæð ef hún orsakast af minni neyslu sígarettna.“

FA bendir á að undanfarin ár hafa ýmsar skaðaminnkandi tóbaks- og nikótínvörur, sem stuðlað geta að því að draga úr reykingum, komið á markað. „Eigi að vera hægt að útskýra fyrir neytendum hvernig þær virka, hvers vegna þær fela í sér minni skaða og hvernig á að nota þær, krefst það þess að hægt sé að sýna og fjalla um vöruna. Allir vita hins vegar hvernig á að nota sígarettu. Sú takmörkun á aðgengi og upplýsingum um rafsígarettur sem frumvarpið felur í sér styður þess vegna við sterka stöðu sígarettunnar á markaði; vörunnar sem óumdeilt er sú skaðlegasta í hópi tóbaks og tengdra vara.“

Umsögn FA um rafrettufrumvarpið

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning