Hringavitleysa í póstmálum

29.11.2023

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 29. nóvember 2023.

Alþingi samþykkti fyrr í mánuðinum samhljóða, að tillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, beiðni um úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu. Að mati Félags atvinnurekenda (FA) er skýrslubeiðni þessi mikið fagnaðarefni. Félagið hefur bent ítrekað á ýmis þau atriði sem þingið felur nú ríkisendurskoðanda að kanna, m.a. brot Íslandspósts á lögum með undirverðlagningu, brot eftirlitsstofnana á skyldum sínum samkvæmt póstlögunum og í hæsta máta óeðlileg pólitísk afskipti af eftirlitsstofnunum, sem þjónuðu þeim tilgangi að tryggja ríkisfyrirtækinu meðgjöf frá skattgreiðendum í harðri samkeppni þess við einkafyrirtæki á póstmarkaði. FA mun ekki liggja á liði sínu að útvega ríkisendurskoðanda margvísleg gögn sem sýna fram á hringavitleysuna í kringum Íslandspóst.

Síðasta ákvörðun Byggðastofnunar, sem á nú að fara með eftirlit með póstmálum, sýnir ágætlega að úttektar er þörf. Morgunblaðið hefur reyndar flutt af því fréttir undanfarið að vegna mistaka við lagasetningu Alþingis sé ekki víst að ákvarðanir stofnunarinnar um póstmál hafi neitt gildi – enn eitt óskiljanlegt klúður stjórnvalda í þessum málaflokki. En göngum samt út frá því að ákvörðunin standi.

Með ákvörðun Byggðastofnunar er gerð breyting á virkum og óvirkum markaðssvæðum fyrir póstþjónustu, samkvæmt tillögu frá Íslandspósti. Óvirk markaðssvæði fyrir bréfaþjónustu eru útvíkkuð verulega en um leið er slíkum svæðum fyrir pakkaþjónustu fækkað.

Að markaðssvæði sé óvirkt þýðir að þar sé ekki hægt að koma við samkeppni á markaðsforsendum og þess vegna sé eðlilegt að alþjónustuveitandi fái stuðning úr ríkissjóði til að halda úti póstþjónustu. FA og fleiri hafa lengi gagnrýnt að fjölmargir þéttbýlisstaðir séu skilgreindir óvirk markaðssvæði fyrir pakkaþjónustu þrátt fyrir að fjöldi fyrirtækja veiti þar þjónustu. Á grundvelli þessara röngu skilgreininga hefur Íslandspóstur fengið um 800 milljónir króna úr vösum skattgreiðenda til að niðurgreiða samkeppni við einkaaðila.

Nú hafa Byggðastofnun og Íslandspóstur „skyndilega“ áttað sig á að a.m.k. 20 fyrirtæki veita ríkisfyrirtækinu samkeppni í pakkaþjónustu um mestallt landið, alla virka daga. Í ljósi þess að þetta er einmitt það sem keppinautar Póstsins hafa reynt að segja eftirlitsaðilum árum saman, eru þetta ekki bara góðar fréttir?

Ekki endilega. Ákvörðun Byggðastofnunar  er nefnilega háð alvarlegum annmörkum. Í fyrsta lagi er þar athugasemdalaust tekið mark á þeirri staðhæfingu Íslandspósts að tap sé á bréfaþjónustu fyrirtækisins og að þetta tap geti haft „veruleg áhrif á fjárhagsstöðu félagsins til framtíðar.“ Hér virðist pósteftirlitsstofnunin enn og aftur horfa framhjá lykilákvæði í 17. grein póstlaganna, sem ætlað er að tryggja samkeppni og hindra undirverðlagningu; að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli „taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.“ Ef tap er á bréfaþjónustu Íslandspósts á með öðrum orðum að hækka gjaldskrána. Að Byggðastofnun kaupi það bara athugasemdalaust að alþjónustan sé rekin með tapi og því stefni í óefni þýðir að stofnunin sinnir hvorki lögbundnu eftirliti sínu með gjaldskránni né með fjárhagsstöðu Póstsins.

Í öðru lagi þýðir útvíkkun á óvirkum markaðssvæðum fyrir bréfaþjónustu að verið er að finna nýja leið til að láta skattgreiðendur niðurgreiða samkeppni ríkisfyrirtækisins við einkaaðila. Með ákvörðuninni er þannig vegið gróflega að samkeppnisstöðu Póstdreifingar, sem hefur verið að sækja inn á bréfamarkaðinn eftir afnám einkaréttar Póstsins á bréfasendingum og starfar nú á yfir 50 þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.

Í þriðja lagi er með þessu jafnframt vegið að keppinautum Póstsins í pakkasendingum þótt það liggi ekki endilega í augum uppi. Íslandspóstur hyggst sameina dreifikerfi bréfa og pakka. Ætla má að bréf og pakkar fari með sömu bílunum og um sömu dreifingarmiðstöðvarnar og pósthúsin. Hvernig á að halda í sundur kostnaðinum við bréfa- og pakkasendingar?

Úttekt ríkisendurskoðanda verður vonandi til þess að vitleysunni í kringum Íslandspóst linni. Það er bæði í þágu skattgreiðenda og keppinauta Íslandspósts að úttektinni verði flýtt eins og unnt er.

Nýjar fréttir

1. maí 2024

Innskráning