Hvað hækkar áfengið mikið með hærri sköttum?

12.09.2022
Verð mun hækka mikið í Vínbúðunum og enn meira í Fríhafnarverslunum ef skattahækkanir fjárlagafrumvarpsins ná fram að ganga.

Hæstu áfengisskattar í Evrópu hækka duglega samkvæmt frumvarpi til fjárlaga ársins 2023. Þannig er gert ráð fyrir að almennt áfengisgjald hækki um 7,7% og að áfengisgjald í fríhafnarverslunum hækki um 150%, úr 10% af almennu áfengisgjaldi í 25%. Líkleg áhrif þessa til hækkunar á einstökum tegundum áfengra drykkja, í Vínbúðum ÁTVR og í Fríhafnarverslunum, sjást í dæmunum hér að neðan sem Félag atvinnurekenda hefur tekið saman. Kassi af vinsælu léttvíni mun þannig hækka um 600 krónur í Vínbúðinni og bjórkippa um tæplega 150 krónur, en eins lítra ginflaska um 663 krónur. Í Fríhöfninni gæti ginflaskan hækkað um 2.300 krónur og léttvínskassinn um 1.800 krónur.

Á myndinni hér að ofan eru nokkur dæmi úr Vínbúðinni um vinsælar vörur. Miðað er við að hlutfallið sem kemur í hlut framleiðanda eða heildsala af söluverði vörunnar verði óbreytt. Ofan á hækkun áfengisgjalds leggst svo álagning ÁTVR og virðisaukaskattur, en skilagjald breytist ekki. Þriggja lítra kassi af léttvíni hækkar um 600 krónur, flaska af léttvíni um 179 krónur, eins lítra vodkaflaska um 663 krónur og bjórflaska um tæplega 25 krónur – sem þýðir þá að kippan hækkar um tæplega 150 krónur. Vekja má athygli á því að ríkið tekur í sinn hlut 92,3% af útsöluverði vodkaflöskunnar, 73,4% af verði kassavínsins og 61% af verði bjórflöskunnar.

Mikil áhrif á útsöluverð í Fríhöfninni
Ef litið er á líklegar verðbreytingar í Fríhöfninni er ögn snúnara að reikna dæmið þar sem álagning hennar er ekki föst og lögbundin eins og hjá ÁTVR. Jafnframt er það ekki heildsalinn eða framleiðandi áfengisins sem stendur skil til ríkissjóðs á áfengisgjaldinu áður en varan er afhent Fríhöfninni, heldur greiðir Fríhöfnin það eftir á. Hér að neðan eru hins vegar nokkur raunhæf dæmi um líklegar verðbreytingar. Hér er gert ráð fyrir að framlegð Fríhafnarinnar af hverri vöru sé sama prósenta og í dag.

Hér má sjá að léttvínskassi sem kostar í dag um 5.000 krónur gæti hækkað um rúmlega 1.800 krónur og ginflaska á svipuðu verði um hátt í 2.300 krónur. Léttvínsflaska sem í dag kostar tæplega 2.300 krónur gæti hækkað um 300 krónur og bjórkippa, sem í dag selst á tæplega 1.700 krónur gæti hækkað um 237 krónur.

Röng staðhæfing um óbreytt gjöld
Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins kemur fram að krónutölugjöld verði hækkuð um 7,7% til samræmis við verðbólguspá Seðlabankans. Þannig muni „gjöldin halda verðgildi sínu milli ára í stað
þess að rýrna enn frekar að raunvirði eins og þau hafa mörg gert undanfarin ár.“ Þar segir jafnframt að þessi gjöld hafi verið „óbreytt frá árinu 2019“. Í tilviki áfengisgjaldsins er þetta alrangt; það hefur verið hækkað árlega og nemur uppsöfnuð hækkun þess 16% frá 2019 til 2023, miðað við frumvarpið.

Hjálpar ekki til í baráttunni við verðbólgu
Áætlað er í greinargerð fjárlagafrumvarpsins að skattahækkunin skili 1,64 milljarða tekjuhækkun í ríkissjóð og tekjur af áfengisgjaldi verði 25,5 milljarðar á næsta ári. „Ríkisstjórnin hjálpar ekki til í baráttunni við verðbólguna þegar hún bætir í gjöld sem hækka almennt verðlag,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Skattlagning á áfenga drykki á Íslandi er löngu komin út úr öllu korti og bitnar til dæmis hart á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Við höfum oft kallað eftir rökstuðningi fyrir því að þessir skattar eigi að vera svona miklu hærri en í nágrannalöndum okkar, en komum þar ævinlega að tómum kofunum hjá stjórnmálamönnum.“

Uppfært 20. september: Í fréttinni segir að hækkun áfengisgjalds í Fríhöfninni verði 150% samkvæmt frumvarpinu. Rétt tala er 169%, enda hækkar grunngjaldið fyrst um 7,7% og ofan á það kemur svo 150% hækkun.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning