Hver eftirlitsheimsókn kostar 1,2 milljónir

04.04.2017
Kjartan Már Friðsteinsson

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana ehf., sagði frá glímu fyrirtækisins við eftirlitsstofnanir á fundi Félags atvinnurekenda um eftirlitsgjöld ríkisins í morgun.

Lagði ríkið í Hæstarétti
Hann sagðist lengi hafa verið ósáttur við prósentugjöld vegna kartaflna og grænmetis, sem lögð voru á, og lengi beðið um rökstuðning fyrir þeim en alltaf rekið sig á veggi. Hann hefði fengið Félag atvinnurekenda í lið með sér, sem hefði talið að gjöldin væru klárlega ólögleg. Hann hefði loksins safnað kjarki til að höfða mál fyrir fjórum árum. Endanleg niðurstaða lá fyrir í desember síðastliðnum, en þá dæmdi Hæstiréttur ríkið til að endurgreiða Banönum rúmlega 40 milljónir króna í eftirlitsgjöld. Fyrirtækið hyggst einnig sækja ofgreidd gjöld undanfarin tvö ár, sem eru um tuttugu milljónir króna.

Veit ekki hvað verið er að borga fyrir
Kjartan var í máli sínu á fundinum einnig mjög gagnrýninn í garð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem mætir oft á ári í fyrirtækið, tekur kassa af vörum af lagernum og innheimtir fyrir hátt í 26.000 króna sýnatökugjald. Við bætist síðan rannsóknarkostnaður á vegum Matís, sem heilbrigðiseftirlitið innheimti og nemi hátt í 82.000 krónum á hvert sýni. „Hver sýnataka er fimmtán stykki, þannig að fyrir hverja heimsókn borga ég 1,2 milljónir. Ég veit ekkert hvað ég er að borga fyrir. Ég veit ekkert hvað kostar að taka svona sýni. Ég á engan kost á að láta einhvern annan gera þetta eða senda þetta út til rannsókna. Ég fæ bara reikning og ef ég borga hann ekki þá lokar heilbrigðiseftirlitið hjá mér,“ sagði Kjartan Már.

Hann sagði að það sem verra væri, að heilbrigðiseftirlitið réði því hvað það kæmi oft til hans og hvað mörg sýni væru tekin. Þetta væri alveg fráleitt. „Þetta er eins og maður sé að keyra í umferðinni á löglegum hraða og lendi í mælingu hjá lögreglunni. Þá fái maður rukkun fyrir mælinguna. Ef lögguna vantar meiri tekjur, þá er bara mælt meira. Þetta er alveg út í hött,“ sagði Kjartan.

Hann sagðist fyrir nokkrum árum hafa séð sýnatökuáætlun heilbrigðiseftirlitsins. Samkvæmt henni hefði átt að heimsækja hans fyrirtæki 20-25 sinnum á ári og kostnaðurinn af eftirlitinu hefði þá orðið um 30 milljónir á ári. Sem betur fer hefði sú áætlun þó ekki gengið eftir.

Ekki hægt að fá að sjá gjaldskrá Matís
Í eftirlitsgjaldaskýrslunni kemur fram að nauðsynlegt sé að setja miklu skýrari reglur um gjaldtöku faggiltra aðila, sem falið er að sinna opinberu eftirliti. Þar sem ekki liggi fyrir skýrar reglur, skorti gagnsæi um hvaða hlutverk eða verkefni er heimilt að framselja til faggiltra aðila. Að sama skapi hafa ekki verið settar neinar nánari reglur um greiðslu kostnaðar vegna starfa slíkra aðila þrátt fyrir að framkvæmdin sé með þeim hætti að eftirlitsskyld fyrirtæki beri þann kostnað. Matís, sem annast ýmislegt opinbert eftirlit og rannsóknir, birtir til dæmis ekki gjaldskrá opinberlega og tókst FA ekki að fá slíka gjaldskrá afhenta frá félaginu.

Rannsóknargjaldið fjórfalt hærra í Reykjavík
Í gjaldskrám heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna er ekki mælt fyrir um fjárhæð gjalda vegna sýnatöku og rannsókna á sýnum hjá faggiltum aðilum þrátt fyrir að ljóst sé að heilbrigðiseftirlitin nýti sér þjónustu slíkra aðila. Þannig er ómögulegt fyrir eftirlitsskyld fyrirtæki að átta sig fyrirfram á hvað slíkar rannsóknir muni kosta og er þessi framkvæmd í ósamræmi við þær kröfur sem gera verður til álagningar og innheimtu eftirlitsgjalda á vegum hins opinbera, að mati FA. Við þetta bætist að rannsóknargjaldið, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur rukkar fyrir hönd Matís, er fjórfalt hærra en rannsóknargjald sem greitt er t.d. á Austurlandi.

Vantar reglur til að hemja eftirlitið
Í skýrslunni er einnig gagnrýnt að oft hafi ekki verið settar reglur um umfang og tíðni opinbers eftirlits og sé þá eftirlitsstofnunum í sjálfsvald sett t.d. hversu oft þær mæti í eftirlitsheimsóknir og hversu mörg sýni séu tekin. Þannig geti þær sjálfar skammtað sér tekjur og aukið kostnað fyrirtækjanna.

Eftirlitsgjaldaskýrsla FA

Upptaka af fundinum á Facebook-síðu FA

Nýjar fréttir

Innskráning