Hver leikur blekkingarleik?

09.09.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA á vef Fréttablaðsins 9. september 2022.

Útboð tollkvóta hafa áhrif á verð ýmissa innfluttra búvara.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) skrifar grein á vef Fréttablaðsins fimmtudaginn 8. september og sakar undirritaðan um að halda fram þeirri „firru“ að útboð á tollkvótum hækki verð til neytenda. Þetta kallar Margrét „blekkingarleik Ólafs Stephensen“ og rekur svo hvernig aldrei hafi tekizt að útskýra fyrir mannræflinum honum Ólafi að útboðsgjaldið, sem innflytjendur búvöru þurfa að greiða fyrir að fá að flytja inn vöru á tollkvóta, hafi engin áhrif á verðið, bara „skiptingu hagnaðar af innflutningnum milli innflytjenda og ríkissjóðs.“ Ástæðan er víst sú að verð vöru ræðst eingöngu af framboði hennar og eftirspurn. Þetta eru óneitanlega fullyrðingar sem ástæða er til að svara og útskýra fyrir lesendum hvernig í málinu liggur.

Fleira spilar inn í varðandi verð vöru en framboð og eftirspurn, eins og allir vita sem koma eitthvað nálægt verzlun og viðskiptum. Mikilvægur þáttur er það samkeppnisumhverfi sem hið opinbera býr viðskiptum, m.a. með sköttum og gjöldum. Starfsemi félagsmanna Margrétar í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði er þannig vernduð fyrir erlendri samkeppni með mjög háum tollum. Íslenzka ríkið hefur hins vegar gert milliríkjasamninga um lítils háttar undanþágur frá þessum tollum, svokallaða tollkvóta, heimildir til að flytja inn takmarkað magn á búvöru á lágum tollum eða engum. Mikill meirihluti tollkvótanna byggist á tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins um að fella niður tolla á takmörkuðu magni svokallaðra viðkvæmra búvara, þ.e. vara sem eru í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Eitt af yfirlýstum markmiðum samningins var að stuðla að lægra verði á búvörum.

Innflutningur á tollkvótum veitir samkeppni
Þannig fékk íslenzkur landbúnaður með samningnum svolitla samkeppni; ekki af því að innflutningsfyrirtæki flyttu inn vörur á tollkvótum og seldu þær á sama verði og innlendu framleiðendurnir, heldur einmitt af því að verðið á þessum innflutningi er lægra. Þannig var Margrét Gísladóttir dugleg að kvarta undan ódýrum innflutningi á tollkvótum þegar hún var framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Sú ákvörðun íslenzkra stjórnvalda að bjóða tollkvótana út hefur aftur á móti orðið til þess að ávinningur neytenda af hinu takmarkaða tollfrelsi fer stöðugt minnkandi, vegna þess að útboðsgjaldið, sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir tollkvótana, hefur farið stöðugt hækkandi. Íslenzka ríkið hefur þannig samið við önnur ríki um að fella niður einn skatt af útflutningsvörum þeirra, þ.e. innflutningstollinn, en leggur í staðinn á annan skatt, útboðsgjaldið. Hæstiréttur hefur staðfest þann skilning að líta beri á útboðsgjaldið sem skatt í skilningi stjórnarskrárinnar, þótt hann hafi þá sérstöðu að ríkið lætur greiðendur hans bjóða í skattheimtuna.

Þetta fyrirkomulag er bæði leynt og ljóst verndaraðgerð fyrir innlendan landbúnað, hugsuð til þess að hækka verð á innflutningi. Bara sú staðreynd að Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri SAFL, telji sig þurfa að skrifa blaðagrein til að mæla því bót, staðfestir að svo er. Þessi grein þyrfti því kannski ekki að vera lengri, en bætum við nokkrum atriðum lesendum til glöggvunar.

Ráðherra, þingmenn og Neytendasamtök haldin sömu firrunni
Margir aðrir en greinarhöfundur eru haldnir þeirri „firru“ eða „blekkingu“ að útboðsgjaldið stuðli að verðhækkunum til neytenda. Þannig setti þáverandi landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, á fót starfshóp sem hafði það hlutverk að „endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.“ Út úr þeirri vinnu kom frumvarp, samþykkt á Alþingi í árslok 2019, þar sem lagt var til nýtt kerfi svokallaðra jafnvægisútboða,  sem átti að stuðla að lækkun útboðsgjaldsins og þar með lægra verði til neytenda. Jafnvægisútboð felur í sér að í stað þess að selja tollkvótana hæstbjóðanda eins og áður borga allir innflytjendur sem fá tollkvóta sama verð; lægsta samþykkta verð fyrir þann tollkvóta sem í boði er.

Um þetta sagði í fréttatilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins á sínum tíma: „Þessi gjaldtaka hefur skapað ríkinu nokkrar tekjur en á sama tíma hefur fyrirkomulagið leitt til hærra vöruverðs fyrir neytendur, þvert á tilgang þess sem að baki tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins árið 2015 liggur.“ Landbúnaðarráðherrann sagði: „Ég hef talið núgildandi fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda. Því er samþykkt Alþingis á þessu frumvarpi sérstakt fagnaðarefni enda má gera ráð fyrir að kostnaður vegna útboða lækki talsvert.“

Fulltrúi Neytendasamtakanna í hópnum lagðist raunar gegn útboði yfirleitt og sagði: „Útboðsleiðin hækkar verð til neytenda og er því ekki vænleg út frá hagsmunum þeirra.“ FA tók undir það og lagði til leiðir til að úthluta tollkvóta án endurgjalds. Félagið spáði því að lækkun útboðsgjaldsins yrði eingöngu tímabundin.

Eftir að frumvarp landbúnaðarráðherrans hafði verið samþykkt, fór fram eitt útboð með nýju aðferðinni. Útboðsgjald á flestum vörum lækkaði verulega. Undan því kvartaði Margrét Gísladóttir opinberlega, vegna þess að það jók samkeppnisþrýsting á innlenda nautakjötsframleiðslu.

Útboðin eru aðferð til að hækka verðið
Næst gerðist það sem sýnir alveg ágætlega að bæði stjórnvöld og hagsmunaöfl í landbúnaði líta á útboð tollkvóta sem verndaraðgerð til að hækka verð. Á árinu 2020 urðu framleiðendur landbúnaðarvara, rétt eins og aðrar atvinnugreinar, fyrir búsifjum vegna kórónuveirukreppunnar. Núverandi félagsmenn Margrétar Gísladóttur í SAFL þrýstu mjög á landbúnaðarráðherrann að setja hömlur á innflutning til að þeir nytu verndar fyrir erlendri samkeppni. Niðurstaðan varð frumvarp um að taka gömlu útboðsaðferðina upp tímabundið í 20 mánuði. Eins og meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis orðaði það í nefndaráliti fól frumvarpið í sér „skjótar tímabundnar aðgerðir til að vernda innlenda framleiðslu.“ Þar var það nú bara sagt alveg grímulaust, sem Margrét kallar firru og blekkingu.

Raunar hafði Alþingi sagt það áður; nánar tiltekið árið 2016, þegar meirihluti atvinnuveganefndar lagði til að tollkvóti fyrir upprunamerktan ost frá ESB yrði ekki boðinn út heldur úthlutað með hlutkesti. Rökstuðningurinn var þessi: „Umræddar tegundir osta, sem njóta verndar innan ESB með vísan til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, eru ekki framleiddar hér á landi og eru því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Þess vegna telur meiri hlutinn eðlilegt að ekki þurfi að greiða fyrir slíkan kvóta …“

Niðurstaðan af þessari ákvörðun Alþingis var ánægjuleg; neytendur njóta nú úrvals evrópskra osta í verzlunum á hagstæðu verði og innlend framleiðsla hefur fengið hvatningu til vöruþróunar og nýjunga eins og skagfirzku Goðdalaostanna.

Innlendir framleiðendur nýta sér kerfið
Félag atvinnurekenda hefur bent á að félagsmenn Margrétar Gísladóttur í SAFL hafa nýtt sér kerfi útboða á tollkvóta til að koma í veg fyrir samkeppni við eigin framleiðslu og stýra þannig verðinu á viðkomandi vörum. Skýrt dæmi um slíkt sást í síðasta tollkvótaútboði í ágúst, þegar tveir innlendir framleiðendur, Stjörnugrís og Mata (systurfélag Matfugls og Síldar og fisks) buðu hæst í tollkvóta fyrir svínakjöt og fengu hann allan, hvert einasta kíló. Sömu félög fengu tæplega 80% tollkvótans fyrir alifuglakjöt, ræktað með hefðbundnum hætti. Þetta eru viðskiptahættir sem eru ekki í þágu neytenda og Félag atvinnurekenda hefur beint því til Samkeppniseftirlitsins að það taki þá til skoðunar.

Hækkandi útboðsgjald þrátt fyrir breytingar
Að lokum er rétt að hnykkja á því sem nefnt var hér í upphafi; skattaumhverfið sem atvinnurekstri er búið hefur að sjálfsögðu áhrif á verðlagningu. Alþekkt er að stjórnvöld leggi skatta á vörur í þeim yfirlýsta tilgangi að hækka verð þeirra, t.d. vegna lýðheilsu- eða umhverfissjónarmiða, ekki til að hafa áhrif á „skiptingu hagnaðar milli fyrirtækja og ríkissjóðs“.

Þrátt fyrir fikt Alþingis í útboðsaðferðinni fram og til baka hefur útboðsgjald fyrir kíló af tollkvóta fyrir nautakjöt hækkað um 220 krónur frá því í árslok 2019 og þar til í síðasta útboði í ágúst, fyrir svínakjöt um 312 krónur og fyrir alifuglakjöt um 325 krónur. Þessi skattur er að sjálfsögðu hluti af kostnaði innflytjandans við að afla vörunnar, rétt eins og t.d. flutnings- eða fjármagnskostnaður og bætist ofan á kostnaðarverð hennar, sem hefur áhrif á verðið til neytenda. Þegar skatturinn hækkar, hækkar kostnaðurinn.

Kostnaður fyrirtækja hefur áhrif á verð – ekki bara framboð og eftirspurn. Það er einmitt ástæðan fyrir því að félagsmenn Margrétar í SAFL hafa tilkynnt verulegar hækkanir á mörgum afurðum sínum á grundvelli hækkana á margvíslegum aðföngum.

Hver ástundar blekkingarleik?
Þetta er svolítið langur lestur, en ásakanirnar sem settar voru fram í grein Margrétar voru líka af brattara taginu. Niðurstaðan er hins vegar sú að ef einhver er að reyna að blekkja fólk í þessu máli er það Margrét Gísladóttir.

Grein Ólafs á frettabladid.is

Nýjar fréttir

Innskráning