Útboðsgjald hækkar mikið og bætir í verðbólguna – FA hvetur til endurskoðunar á aðferðum við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur

30.08.2022

Miklar hækkanir hafa orðið á útboðsgjaldi, sem matvöruinnflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja inn matvæli frá ríkjum Evrópusambandsins án tolla. Þetta kemur fram í yfirliti sem matvælaráðuneytið hefur birt um niðurstöður síðasta útboðs á tollkvóta fyrir búvörur frá ESB, en tollkvóti er heimild til að flytja inn tiltekið magn vöru án tolla. Þannig hækkar útboðsgjald fyrir nautakjötskvóta um 204 krónur á kíló frá síðasta útboði í apríl, eða um 58,8%. Hækkun á tollkvóta fyrir svínakjöt er 179 krónur á kíló, eða 55,8% og kvóti til að flytja inn lífrænt ræktaðan kjúkling hækkar um 133 krónur kílóið, eða um 49,6%. Þessar hækkanir útboðsgjalds valda væntanlega hækkun á útsöluverði þessara vara, til viðbótar við þær hækkanir sem orðið hafa á evrópskum búvörumarkaði undanfarin misseri, og bæta þannig í verðbólguna. Hækkanirnar eiga sér jafnframt stað þótt nú sé á ný viðhaft svokallað jafnvægisútboð, sem átti að stuðla að lækkun útboðsgjalds og verða þannig neytendum til hagsbóta. Félag atvinnurekenda telur að endurskoða verði fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta til að tryggja að innflutningsverslun og neytendur njóti þess ávinnings af tollasamningi Íslands og ESB, sem upphaflega var stefnt að.

Innlendir framleiðendur bjóða hátt og fá allan tollkvótann fyrir svínakjöt
Að mati FA eru fjórar ástæður fyrir hinum miklu hækkunum á útboðsgjaldinu. Í fyrsta lagi er aukin eftirspurn, m.a. vegna fólksfjölgunar og vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað mjög á nýjan leik eftir kórónuveirukreppuna. Innflytjendur þurfa líka oft að bregðast við skorti á tilteknum vörum á innanlandsmarkaði, til dæmis nautakjöti og skinkum í þeim gæðum sem markaðurinn krefst.

Í öðru lagi er ljóst að innlendir framleiðendur búvara stunda það í vaxandi mæli að bjóða hátt í tollkvóta til að eiga auðveldara með að hindra erlenda samkeppni við eigin vörur og stýra þannig verðinu á innanlandsmarkaði. Í þessu útboði gerist það í fyrsta sinn að innlendir framleiðendur svínakjöts (Mata, systurfélag Ali og Matfugls, og Stjörnugrís) fá í sinn hlut allan tollkvótann fyrir svínakjöt. Sömu fyrirtæki hrepptu 78,3% af tollkvóta fyrir alifuglakjöt ræktað með hefðbundnum hætti. Mata fær auk þess í sinn hlut 36,4% af kvótanum fyrir lífrænt ræktað alifuglakjöt. Stjörnugrís nær í 62,8% kvótans fyrir þurrkaðar og reyktar skinkur og 17,2% nautakjötskvótans. Mjólkursamsalan fær 7,9% af ostakvótanum. Innlendir framleiðendur búvöru gerast þannig æ umsvifameiri í innflutningi. FA hefur sent ábendingu til Samkeppniseftirlitsins um að það taki þá viðskiptahætti til skoðunar.

Í þriðja lagi blasir við að verðhækkanir á evrópskum búvörumarkaði spila inn í. Eftir því sem innkaupsverð búvara hækkar, lækkar hlutfall útboðsgjaldsins af verðinu og innflytjendur treysta sér þá til að bjóða hærra.

Í fjórða lagi er ljóst að að sú tímabundna verndaraðgerð fyrir innlendan landbúnað að taka upp eldri útboðsaðferð, þar sem tollkvótar voru seldir hæstbjóðanda í 20 mánuði, hefur leitt til hækkana á gjaldinu sem ekki ganga svo auðveldlega til baka þótt nú hafi á nýjan leik verið tekin upp aðferð svokallaðs jafnvægisútboðs. Jafnvægisútboð felur í sér að í stað þess að selja tollkvótana hæstbjóðanda borga allir innflytjendur sem fá tollkvóta sama verð; lægsta samþykkta verð fyrir þann tollkvóta sem í boði er.

Markmið um lægri kostnað vegna tollkvótaútboða hafa ekki náðst
Jafnvægisútboðið var samþykkt með lögum í desember 2019 og fór fyrsta útboðið með þeirri aðferð fram í júní 2020. Það leiddi til verulegra lækkana á útboðsgjaldi fyrir flestar búvörur eins og sjá má á grafinu hér að ofan. Það var einmitt tilgangurinn; atvinnuvegaráðuneytið eins og það hét þá hafði viðurkennt að þáverandi fyrirkomulag útboðs á tollkvóta hefði „leitt til hærra vöruverðs fyrir neytendur, þvert á tilgang þess sem að baki tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins árið 2015 liggur.“

Þegar þáverandi landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tjáði sig um samþykkt frumvarps um málið, sagði hann: „Ég hef talið núgildandi fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda. Því er samþykkt Alþingis á þessu frumvarpi sérstakt fagnaðarefni enda má gera ráð fyrir að kostnaður vegna útboða lækki talsvert. Þá verður allt regluverk um úthlutun tollkvóta sanngjarnara og einfaldara til hagsbóta fyrir neytendur, framleiðendur og innflytjendur matvæla.“

Ráðherrann hafði þessa afstöðu reyndar ekki lengi, því að tæpu ári síðar, í lok ársins 2020, flutti hann frumvarp um að taka fyrirkomulagið, sem honum hafði þótt „óeðliegt og ósanngjarnt“ upp aftur tímabundið til að verja innlendan landbúnað fyrir áhrifum kórónuveirukreppunnar. Sú breyting gilti í 20 mánuði og leiddi strax til hækkana á útboðsgjaldi, eins og sjá má á grafinu.

Tollkvótaútboðið nú í ágúst var fyrsta jafnvægisútboðið sem fram fór eftir að hin tímabundna verndaraðgerð féll úr gildi. Nú bregður svo við, eins og sést í töflunni að ofan, að útboðsgjaldið er í öllum tilvikum hærra en í síðasta útboði ársins 2019, í sumum tilvikum tvö- til þrefalt hærra. Markmiðin, sem sett voru við lagabreytinguna, um lækkun kostnaðar innflytjenda af tollkvótaútboðum eru því rokin út í veður og vind.

Þarf að endurskoða úthlutun tollkvóta
Félag atvinnurekenda taldi á sínum tíma að upptaka jafnvægisútboðs væri skárri en engin breyting á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta, en benti engu að síður á að hún væri skammgóður vermir. „Sagan sýnir […] að útboðsgjaldið hefur á lengri tíma þá tilhneigingu að hækka stöðugt og ná jafnvægi í tölu sem er rétt undir kostnaði innflytjenda af að flytja viðkomandi vöru inn á fullum tolli. Engin ástæða er til að ætla að langtímaþróunin verði önnur, þótt breytt útboðsaðferð verði notuð. Þannig mun áframhaldandi uppboð á tollkvóta áfram éta upp smám saman ávinning fyrirtækja og neytenda af því tollfrelsi sem samið hefur verið um í alþjóðasamningum og stjórnmálamenn halda gjarnan fram á hátíðisstundum að eigi að stuðla að lægra vöruverði og meiri samkeppni,“ sagði í umsögn FA um frumvarp landbúnaðarráðherra.

FA tók í þeirri umsögn undir tillögu Brynhildar Pétursdóttur, sem var fulltrúi Neytendasamtakanna í starfshópi sem samdi tillögur sem liggja frumvarpinu til grundvallar, en hún lagði til að hætt yrði að bjóða upp tollkvóta og þess í stað farin blönduð leið, þar sem 50% kvótans yrði úthlutað með hlutkesti og 50% á grundvelli sögulegra viðskipta (markaðshlutdeild). Rökstuðningur fulltrúa NS var að útboðsleiðin myndi hækka verð til neytenda og væri því ekki vænleg út frá hagsmunum þeirra, enda væri markmiðið með tollkvótunum að auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli landa.

„Nú liggur fyrir að lagabreytingin 2019, sem átti að bæta hag neytenda, framleiðenda og innflytjenda matvæla hefur ekki skilað tilætluðum árangri,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Á sama tíma og matvörur hækka mjög í verði bætast hækkanir á útboðsgjaldinu ofan á verðhækkun innfluttra vara. Stjórnvöld hljóta að endurskoða fyrirkomulagið og taka til skoðunar tillögur FA, Neytendasamtakanna, Samkeppniseftirlitsins og fleiri um aðferðir til að úthluta tollkvóta án endurgjalds. Um leið hlýtur að þurfa að taka fyrir að innlendir framleiðendur misnoti úthlutunarkerfið til að hindra samkeppni.“

Nýjar fréttir

Innskráning