Framsóknarflokkurinn vill lækka tryggingagjald smærri fyrirtækja, t.d. með færri en fimm starfsmenn, en hækka á móti tekjuskatt af hagnaði fyrirtækja sem fer yfir 200 milljónir. Þá vilja Framsóknarmenn endurskoða kerfi fasteignaskatta, enda gengur núverandi kerfi ekki lengur. Þetta var á meðal þess sem kom fram í spjalli Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA í beinni útsendingu á Facebook úr Kaffikrók FA. Hægt er að horfa á samtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Ólafur vitnaði til kannana, sem FA hefur gert á meðal félagsmanna um hvaða mál gagnvart stjórnvöldum brenni helst á þeim. Þar eru tryggingagjald og annar launatengdur kostnaður langefst á blaði. „Hjá þessum venjulegu fyrirtækjum, sem eru mannaflsfrek, er tryggingagjaldið verulega íþyngjandi og hátt hlutfall af kostnaði,“ sagði Sigurður. „Hjá stóru fyrirtækjunum, sérstaklega framleiðslufyrirtækjum, er tryggingagjaldið hlutfallslega minni þáttur. Við höfum alveg hlustað á þetta á undanförnum árum og bregðumst við því í okkar áherslum núna fyrir kosningarnar, með því að leggja til að skoðað verði að taka upp einhvers konar þrepaskipt tryggingagjald eftir stærð fyrirtækja. Ástæðan fyrir því er auðvitað að þessi fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi.“
Sigurður Ingi vill jafnframt skoða að taka upp tvö þrep í tekjuskatti á fyrirtæki. „Þau fyrirtæki sem væru með verulegan hagnað af sínum rekstri, segjum 200 milljónir eða meira, myndu borga hærra gjald til að fjármagna þetta. Hluti af leiknum er að halda efnahagslegum stöðugleika jafnvægi til að geta haldið vaxtastiginu áfram lágu í samstarfi við aðgerðir Seðlabankans.“
Sigurður sagði að leggjast þyrfti yfir nákvæmar útfærslur þessara tillagna með sérfræðingum. „Við sjáum fyrir okkur að þetta gæti verið góð nálgun til að örva atvinnulífið, ekki síst hjá þeim fyrirtækjum þar sem við vitum að hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi er. Við höfum stundum séð að þessi fyrirtæki veigra sér við að ráða fólk vegna tryggingagjaldsins og fyrir vikið er atvinnuleysi heldur hátt.“
Kerfi fasteignaskatta gengur ekki lengur
Ólafur ræddi um fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði, en hann hefur hækkað um tæplega 70% á sex árum í krónum talið, þrátt fyrir lækkanir einstaka sveitarfélaga á skattprósentunni til að mæta miklum hækkunum fasteignamats. „Skattarnir fylgja fasteignamatinu, sem er reiknað út með einhverjum hætti sem enginn skilur og er mjög ógegnsætt þannig að fyrirtækin vita oft illa fyrirfram hvað þau eru að fara að borga í fasteignaskatt. Við höfum dæmi um það núna frá undanförnu ári í faraldrinum að húsnæði sem stóð autt og var illseljanlegt fékk engu að síður á sig 10% hækkun fasteignamats og þar með hækkaði skatturinn líka um 10% þótt húsnæðið skilaði engum tekjum.“ Ólafur spurði Sigurð Inga hvort hann teldi þetta kerfi geta gengið svona lengur.
„Stutta svarið er nei og við höfum hafið undirbúning að heildarendurskoðun á því,“ svaraði Sigurður Ingi. „Ég held það sé sanngjarnt að segja að okkur í stjórnsýslunni finnst skynsamlegt að fara yfir þetta í heild sinni.“ Hann sagðist ekki vilja fara nákvæmlega út í hvernig ætti að breyta kerfinu, en nauðsynlegt væri að endurskoða það.
Ólafur og Sigurður Ingi ræddu ýmis önnur mál, til dæmis stöðu Íslandspósts, samgöngur og vöruflutninga á höfuðborgarsvæðinu, tvöfalda verðlagningu í sjávarútvegi, tolla- og landbúnaðarmál. Smellið á spilarann hér að ofan til að horfa.