Könnun FA: Fyrirtækin ánægð með baráttu félagsins

08.02.2021
Smelltu á myndina til að stækka hana.

Almenn ánægja virðist meðal félagsmanna FA með frammistöðu félagsins í þeim baráttumálum sem það lét til sín taka á síðasta ári, samkvæmt könnun sem gerð var meðal félagsmanna. Samtals telja um 90% aðildarfyrirtækjanna að félagið sé sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn og að ímynd þess sé jákvæð.

Ef litið er á einstök baráttumál, er mest ánægja meðal félagsmanna með frammistöðu FA í baráttu fyrir því að aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar skerði ekki samkeppni, en 90% segjast ánægðir eða mjög ánægðir.  Næst kemur barátta félagsins því að eftirlitsgjöld ríkisins séu í samræmi við raunkostnað og að ríkið sé ekki í samkeppni við einkafyrirtæki, en þar sögðust samtals 84% svarenda ánægðir með frammistöðuna.

Yfirgnæfandi meirihluti er ánægður með frammistöðu félagsins í  öllum öðrum helztu baráttumálum þess á síðasta ári, eins og sjá má á skífuritunum hér að neðan. Minnst er ánægjan og „hvorki né“-hópurinn stærstur þegar kemur að mati á frammistöðu félagsins í baráttu fyrir lækkun áfengisskatta, en þar segjast 59% samtals ánægð með frammistöðuna. Í öðrum málum eru á bilinu 64% til 81% svarenda ánægðir með frammistöðu félagsins í baráttunni.

Í svörum við opinni spurningu um hvert ætti að vera helsta baráttumál FA á árinu 2021, nefndu flestir áframhaldandi lækkun tryggingagjalds og annarra fyrirtækjaskatta. Næstflestir nefndu upptöku evru. Allnokkrir nefndu einnig lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, minna umfang hins opinbera og lækkun tolla.

Spurt var um afstöðu félagsmanna til frammistöðu félagsins í níu baráttumálum.

Könnun FA var gerð dagana 27. janúar til 3. febrúar og var send í tölvupósti til 166 félagsmanna með beina félagsaðild. Svör bárust frá 62, eða 37,3%. Svarhlutfall í könnuninni undanfarin ár hefur verið á bilinu 31 til 64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning