Launahækkanirnar meiri en í samkeppnislöndunum

04.09.2019

Þótt kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafi verið mun hóflegri en stefndi í miðað við kröfur verkalýðshreyfingarinnar síðastliðið haust, innhéldu þeir mjög ríflegar launahækkanir og mun meiri en í samkeppnislöndunum. Launahækkanir hafa því rýrt samkeppnisstöðu Íslands, en á móti kemur að lækkun gengis krónunnar bætir hana. Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á morgunverðarfundi FA um ástand og horfur í efnahagsmálum. Horfa má á upptöku af fundinum hér fyrir neðan.

Á sambærilegum fundi í fyrra sagði Þórarinn að Seðlabankinn myndi hækka vexti ef samið yrði um of miklar launahækkanir. Hann var spurður hvort kjarasamningarnir síðastliðið vor hefðu verið skynsamlegir og stuðlað að mjúkri lendingu í efnahagsmálum. „Það fer eftir því hver viðmiðunarpunkturinn er. Ef hann er sá, eins og var í umræðunni á þessum tíma um hvernig kjarasamningar gætu orðið, þá var þetta mjög skynsamlegur kjarasamningur og leiddi til góðrar niðurstöðu, vegna þess að versta sviðsmyndin um hvernig þetta færi gekk ekki eftir. Það verður hins vegar ekki komist framhjá því að þetta voru mjög ríflegar launahækkanir, miklu meiri en við sjáum í okkar samkeppnislöndum, sem þýðir að samkeppnisstaða Íslands hélt áfram að rýrna. Á móti kom hins vegar að gengi krónunnar lækkaði, sem lagaði það að einhverju leyti,“ sagði Þórarinn.

Hann rifjaði upp að Seðlabankinn hefði hækkað vexti í nóvember síðastliðnum. Það sem hefði hins vegar kannski helst stuðlað að því að samningum lauk eins og raun bar vitni, hefði verið efnahagsáfallið vegna falls WOW air. „Ég held að það hafi að einhverju leyti breytt væntingum verkalýðshreyfingarinnar um hvað væri framundan og hvernig samningi væri hægt að ná. Það hjálpaði til við að ná niður verðbólgunni og kallaði þá á minni viðbrögð frá okkur. Það voru ekki bara kjarasamningarnir, heldur líka þessi ytri efnahagsáföll sem ég er búinn að lýsa.“

Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA.

Tæplega 1% samdráttur vegna tollastríðs og Brexit
Þórarinn fjallaði um áhrif af alþjóðlegu viðskiptastríði, þar sem Bandaríkin og Kína eru stærstu leikendurnir, og af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings. Mat Seðlabankans er að viðskiptastríðið geti þýtt 0,3% samdrátt í landsframleiðslu Íslands á árunum 2019-2021 og Brexit samdrátt um 0,5%. Þessi alþjóðlega þróun geti jafnframt þýtt 1,8% samdrátt í útflutningi á sama tíma. Að einhverju leyti gætu áhrifin af minni alþjóðlegri eftirspurn vegna tollastríðs þegar verið komin fram. Þórarinn benti á að þeir viðskiptasamningar, sem Ísland hefur gert við Bretland til að undirbúa samningslausa útgöngu úr ESB og EES, skiptu ekki öllu máli við mat á þessum áhrifum. „Það verður efnahagssamdráttur í Bretlandi og gengi pundsins lækkar. Það smitast út á Evrusvæðið og þar verður efnahagssamdráttur. Þessi lönd eru að kaupa eitthvað af okkur, eftirspurn þar minnkar og það hefur áhrif á okkur. Það verður ekki komist framhjá þessu með einhverjum viðskiptasamningum, þetta eru bara hin þjóðhagslegu áhrif af svona efnahagsskelli.“

Vaxtaákvarðanir fara eftir hagþróuninni
Þórarinn benti á að vextir hefðu aldrei verið lægri á Íslandi, en stýrivextir Seðlabankans eru nú 3,5%. Í sumum þróuðum iðnríkjum eru raunvextir orðnir neikvæðir. Hann var spurður út í líklega þróun í vaxtaákvörðunum Seðlabankans og sagði að þær réðust af efnahagsþróuninni. „Ef verðbólga og verðbólguvæntingar eru til friðs og efnahagssamdráttur verður kannski meiri en við höfum gert ráð fyrir vegna tollastríðs eða Brexit, þá höfum við svigrúm til að lækka vextina. Ef verðbólguhorfurnar versna, erum við tilbúin til að hækka þá aftur,“ sagði Þórarinn. Hann sagði að stýrivextirnir væru vonandi ekki á leiðinni niður undir núll, því að það væri merki um alvarlegan efnahagssamdrátt. Í eðlilegu árferði, þar sem verðbólgan væri í kringum 2,5% markmið Seðlabankans, ættu stýrivextirnir að vera 4,5% til 5%.

Glærur Þórarins

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning