Margt gerst, mikið breyst – en ekki nóg

11.01.2022

„Ég held að mjög margir [karlar] séu að endurmeta afstöðu sína í þessum málum,“ sagði Ólafur Stephensen í Kastljósi.
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sagði í viðtali í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi að viðskiptalífið væri enn að læra að fást við mál sem vörðuðu kynferðislega áreitni, ofbeldi eða mismunun. Fyrirtæki þyrftu að íhuga viðbrögð sín við #metoo-málum og hvort einhver slík leyndust innan fyrirtækjanna eða í tengslum við þau. Ólafur ræddi málið við Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamann og Ingunni Agnesi Kro, lögfræðing og stjórnarmann í ýmsum stórfyrirtækjum.

Ólafur sagði að fimmtudagurinn 6. janúar, þegar nokkrir menn, sumir áberandi í viðskiptalífinu, hættu störfum eða viku sæti vegna ásakana um kynferðisbrot, hefði verið býsna stór dagur í baráttunni sem kennd er við #metoo.

Mikið gerst á fjórum árum – en ekki nóg
„Þegar maður horfir til baka þá hefur í raun býsna margt gerst og ég held að við séum komin talsvert langt á þessum rúmlega fjórum árum frá því að metoo-byltingin hófst,“ sagði Ólafur. „Þetta byrjar allt síðla árs 2017 með frásögnum tuga kvenna af kynferðisofbeldi, áreitni og mismunun innan fyrirtækja. Með því verður ákveðin vitundarvakning. Það sem hins vegar einkennir mikið þær frásagnir er úrræðaleysið í fyrirtækjunum, ekki síst hjá stjórnendum. Þeir vissu gjarnan ekkert hvernig þeir ættu að taka á þessum málum, jafnvel þótt lagaramminn væri skýr.“

Stjórn Félags atvinnurekenda ályktaði um #metoo í desember 2017 og hvatti félagsmenn til að tryggja að kynferðisleg og kynbundin áreitni, ofbeldi og mismunum þrifist ekki í fyrirtækjum þeirra. Ólafur rifjaði upp að FA hefði í framhaldinu farið í vinnu með aðildarfyrirtækjunum við að tryggja að viðbúnaður þeirra gagnvart slíkum málum væri í lagi. „Við sögðum: Starfsmannastefnan þarf að endurspegla hvað ykkur finnst; svona er ekki í boði. Fólk þarf að vita hvert það á að snúa sér og það þurfa að vera skýrir ferlar til að taka á því. Núna, þegar við gerum kannanir hjá okkar félagsmönnum, þá er mikill meirihluti fyrirtækjanna sem segist vera með þennan viðbúnað í lagi en það er kannski ekki nóg.“

Ólafur sagði að næsti áfangi í #metoo-baráttunni hefði verið mál framkvæmdastjóra hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem var sagt upp störfum haustið 2018 vegna óviðeigandi framkomu gagnvart starfsfólki. „Mig minnir að þá hafi ég sagt í einhverju viðtali að ef það mál ætti að kenna mönnum eitthvað, þá væri það að sitja ekki og bíða og vona að málið fari. Það er klárlega ekki lengur hægt að treysta á meðvirknina og þöggunina í samfélaginu – af því að þetta nýjasta mál sýnir okkur að það er farið. Ég held að ef eitthvað er, hafi þessi fyrirtæki sem hér um ræðir brugðist heldur seint við.“

Ingunn Agnes Kro, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Ólafur Stephensen ræddu málið í Kastljósi.

Eitruð fyrirtækjamenning ekki upprætt nema taka á samfélagsmeininu
Viðskiptalífið er enn að læra í þessum málum að mati Ólafs. „Það sem er kannski stóra breytingin í þessu máli er – það er til dæmis ekkert óskaplega langt síðan stjórnandi í stóru fyrirtæki var látinn fara út af svona metoo-máli, en það var út af einhverju sem gerðist inni í fyrirtækinu. Þetta mál segir okkur að það er ekki bara hægt að segja að þetta hafi verið eitthvað sem viðkomandi gerði í sínum frítíma og komi ekki því sem er að gerast í fyrirtækinu við. Af því að við vorum að tala um eitraða fyrirtækjamenningu – hún verður auðvitað ekki upprætt nema samfélagsmeinið sem slíkt – sem er ofbeldi, áreitni og mismunun gagnvart konum – sé upprætt. Og það gerist auðvitað bara á miklu víðtækari vettvangi. Þar verða fyrirtækin, og ekki síður þeirra stjórnendur og eigendur, að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég held að þetta mál sé klárlega fordæmisgefandi en ég er ekki að segja að við séum komin til botns í því hvernig við eigum að höndla þetta.“

Aukinn hlutur kvenna og áhrif lífeyrissjóða skipta máli
Ólafur sagðist telja að stjórnendur fyrirtækja ættu nú að vera að velta fyrir sér í fyrsta lagi hvað þeir myndu gera ef sambærilegt mál kæmi upp innan þeirra fyrirtækis eða í tengslum við það. „Og í öðru lagi: Eru einhver mál í þessu fyrirtæki eða tengd því, sem geta átt eftir að springa svona framan í okkur? Þá kemur nú upp í hugann gamla reglan í almannatengslum: Ef þú ert í vandræðum, segðu þá frá því strax og segðu það sjálfur, því að það er alltaf betra en að aðrir komi og segi frá því.

Framkvæmdastjóri FA tók undir það með viðmælendum sínum að það hefði skipt máli um þróun þessa tiltekna #metoo-máls að stjórnir í fyrirtækjum væru orðnar fjölbreyttari á síðari árum. „Fjölgun kvenna í stjórnum hefur örugglega skipt máli. Ég held líka að það hafi mögulega skipt máli, allavega í einhverjum af þessum tilvikum sem við höfum verið að ræða síðustu daga, hvað lífeyrissjóðirnir eru orðnir öflugir eigendur í nánast öllum skráðum fyrirtækjum. Þeir verða náttúrlega að gæta alveg sérstaklega vel að sér og hafa verið að leggja stóraukna áherslu á samfélagslega ábyrgð í sínum fjárfestingum, enda náttúrlega í eigu okkar allra.

Kastljósviðtalið í heild

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning