Matartollar og fatatollar

09.07.2015

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 9. júlí 2015. 

Innfluttar skinkurBúvöruframleiðendur á Íslandi eru verndaðir fyrir erlendri samkeppni með gríðarháum tollum. Samkvæmt WTO-samningnum og samningi við Evrópusambandið má þó flytja inn örlítið brot af innanlandsneyzlu á lægri tollum þannig að innflutningur sé á samkeppnisfæru verði.

Stjórnvöld úthluta þessum innflutningsheimildum með útboðum, sé eftirspurn eftir þeim meiri en framboðið. Það er yfirleitt tilfellið, enda eru tollkvótarnir sílækkandi hlutfall innanlandsneyzlu á búvörum. WTO-kvótarnir miðast við neyzluna eins og hún var fyrir nærri þrjátíu árum, en hún hefur í mörgum tilvikum margfaldazt.

Þetta leiðir af sér að gjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir að fá að flytja inn búvörur, fer síhækkandi og hækkar nú verð innfluttu vörunnar um tugi prósenta. Í sumum tilvikum slagar útboðsgjaldið, auk „lágu“ tollanna, upp í almenna ofurtollinn og innflutningur veitir innanlandsframleiðslu ekki þá samkeppni sem til var ætlazt.

Í marz síðastliðnum gerðist tvennt. Fyrst dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur útboðsgjaldið andstætt stjórnarskrá. Samkvæmt búvörulögum hafði landbúnaðarráðherra val um hvort hann úthlutaði tollkvótunum með útboði eða hlutkesti. Dómurinn taldi útboðsgjaldið skatt og að Alþingi hefði framselt ráðherra of ríkt vald til að ákveða hvort hann skyldi lagður á. Svo lagði Samkeppniseftirlitið til að í þágu aukinnar samkeppni og lægra vöruverðs yrði útboðunum hætt og frekar tekinn sá kostur að varpa hlutkesti.

Viðbrögð Alþingis við þessum tveimur atburðum voru þau að samþykkja breytingu á búvörulögunum þar sem sá möguleiki að úthluta tollkvótum með hlutkesti er strikaður út. Þannig er fest í sessi til frambúðar það fyrirkomulag sem Samkeppniseftirlitið vildi að yrði aflagt.

Þessi breyting fór umræðulítið í gegnum þingið. Það kemur ekki á óvart að flokkar sem lengi hafa aðhyllzt miðstýringu og verndarstefnu hafi greitt henni atkvæði sitt. Hins vegar hljóta margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem yfirleitt talar fyrir viðskiptafrelsi, að hafa samþykkt breytinguna með óbragð í munni. Formaður flokksins boðaði nýlega að tollar á fötum yrðu felldir niður. Ætli hann telji einhvern eðlismun á viðskiptum með föt og mat?

Nýjar fréttir

Innskráning