Meira um vanhæfi og vinnubrögð Ríkisendurskoðunar

08.04.2025

Í tilefni af tilkynningu Ríkisendurskoðunar, sem send var fjölmiðlum í dag, vill Félag atvinnurekenda taka eftirfarandi fram:

FA vísar alfarið á bug því sem fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar, að FA hafi ekki „með nokkrum hætti leitast við að rökstyðja endurteknar dylgjur sínar eða afla skýringa sem varða hlutverk eða stjórnsýslu Ríkisendurskoðunar.“

Eftir að „frumathugun“ Ríkisendurskoðunar, sem unnin var í framhaldi af skýrslubeiðni Alþingis, var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins 14. marz í fyrra, sendi FA nefndinni erindi, þar sem í fyrsta lagi var vakin athygli á vanhæfi Ríkisendurskoðunar til að sinna þeirri beiðni, þar sem stofnunin var ráðgjafi Íslandspósts við að stilla upp tölum úr rekstri fyrirtækisins til að fá sem hæst framlög úr ríkissjóði. Beiðni þingsins sneri einmitt meðal annars að því hvort framlög skattgreiðenda til Íslandspósts væru rétt reiknuð.

Í öðru lagi fylgdi erindi FA minnisblað, þar sem farið er með ýtarlegum hætti yfir frumathugun Ríkisendurskoðunar og bent á fjölmörg atriði þar sem stofnunin svarar ekki spurningum þingsins, þótt ýtarlegar upplýsingar liggi fyrir sem gera henni það kleift. Nefndinni var ennfremur sent minnisblað, sem FA tók saman fyrir Ríkisendurskoðun og innihélt upplýsingar varðandi svör við þeim spurningum sem þingið lagði fram í skýrslubeiðni sinni. Hlekkir eru á erindið og minnisblöðin hér að neðan. Þetta ætti að teljast sæmilega „málefnaleg og vel rökstudd“ gagnrýni, svo vísað sé til orðalags í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar.

Í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar segir að margar spurningar þingsins hafi lotið að málum sem þegar höfðu fengið úrlausn hjá tilskildum eftirlitsaðilum. Í minnisblaði FA er bent á að beiðni þingsins laut einmitt að skoðun á því hvernig framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu hefði verið háttað. Verið var að biðja um eftirlit með eftirlitinu, ef svo má segja. Ríkisendurskoðun varð ekki við þeirri beiðni.

Í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar segir einnig að FA hafi „á engum tímapunkti verið í samskiptum við embættið vegna þessara aðdróttana.“ FA sendi Ríkisendurskoðun fjölda gagna vegna skýrslubeiðni Alþingis og átti fund með stofnuninni. Þegar afurðin lá fyrir, var ljóst að áhugi Ríkisendurskoðunar á réttum upplýsingum í málinu var enginn. FA sá því ekki tilgang í frekari samskiptum við stofnunina um þetta mál.

Það vekur furðu FA að Ríkisendurskoðun hafi ekki strax þegar skýrslubeiðni Alþingis lá fyrir, gert þinginu grein fyrir því að annars vegar væri hún ekki hæf til verksins vegna starfa sinna fyrir Íslandspóst og hins vegar teldi hún ekki á verksviði sínu að svara spurningum þingsins. Það hefði þá verið hægt að leita annarra leiða við úttekt á framkvæmd og eftirliti með póstlögunum, sem þingið telur augljóslega, líkt og FA, að sé í ólestri.

FA er hins vegar allsendis ósammála því að verkefnið sé ekki á verksviði Ríkisendurskoðunar. Skýrslubeiðni þingsins sneri, eins og áður sagði, að meðferð fjármuna skattgreiðenda, sem runnið hafa til Íslandspósts og fjármagnað undirverðlagningu fyrirtækisins, sem bitnað hefur á keppinautum þess. Tilgangur stjórnsýsluúttekta Ríkisendurskoðunar er meðal annars að horfa til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, eins og segir í 6. grein laga um ríkisendurskoðanda.

Að þessu sögðu, fagnar FA því að í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sé lagt til að Ríkisendurskoðun hætti að endurskoða félög og stofnanir ríkisins og einbeiti sér að stjórnsýslu- og rekstrarúttektum. Slík breyting myndi fækka hagsmunaárekstrum og koma í veg fyrir vanhæfi eins og það sem við blasir í þessu máli.

Erindi FA til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, dags. 26. marz 2024
Minnisblað FA til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, dags. 26. marz 2024
Minnisblað FA til Ríkisendurskoðunar – ákvarðanir um gjaldskrá Íslandspósts, dags. 1. marz 2024
Minnisblað FA til Ríkisendurskoðunar – misbrestur á framkvæmd póstlaga, dags. 1. marz 2024

Nýjar fréttir

Innskráning