Meirihluti telur jafnlaunavottun stuðla að auknu jafnrétti – efasemdir um kostnaðinn

16.02.2017
Smellið til að sjá stærri mynd

Meirihluti félagsmanna FA, sem svöruðu könnun félagsins í byrjun árs, telur að lögbundin jafnlaunavottun myndi stuðla að auknu launajafnrétti. Þegar hins vegar er spurt hvort stjórnendur telji að ávinningur af vottuninni yrði meiri en kostnaðurinn fyrir þeirra fyrirtæki, eru álíka stórir hópar sammála og ósammála og meirihlutinn telur að kostnaður vegi upp ávinninginn.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, ræðir niðurstöður könnunarinnar og viðhorf FA til lögbundinnar jafnlaunavottunar, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

„Niðurstöðurnar koma þannig séð ekki á óvart. Ég er ekki hissa á því að margir sjái gildi í þessari jafnlaunavottun fyrir framgang jafnréttis. svörin við seinni fullyrðingunni sýna aftur á móti að fólk gerir sér grein fyrir því að þessu fylgir kostnaður,“ segir Ólafur.

Hann segir að nokkur aðildarfyrirtæki FA hafi farið í gegnum þessa vottunarvinnu og að niðurstaðan sé sú að ávinningurinn sé meiri en kostnaður. „Þetta kallar hins vegar á mjög mikla vinnu. Það þarf til dæmis að greina allan launastrúktúr viðkomandi fyrirtækis og það er meira en að segja það. Þetta hafa fyrirtækin verið að gera að eigin frumkvæði.“

Efins um lögbundna kvöð
Í viðtalinu segist Ólafur efins um ágæti þess að lögfesta þessa kvöð á fyrirtæki. „Það er ekki eins og atvinnulífið hafi ekki sýnt þessum málum áhuga. Mörg fyrirtæki hafa hafið vinnuna og sum eru mjög langt komin í ferlinu. Það væri eðlilegra að mínu mati að leyfa þessu ferli að fara alla leið áður en ríkisvaldið fellir þann dóm að tilraunin hafi mistekist.“ Hann segist einnig hafa áhyggjur af því að viðhorf til jafnréttismála muni breytast til hins verra við það að lögfesta jafnlaunavottun. „Þegar fólk þarf ekki að hugsa sjálft um þessi mál vegna þess að ríkið hefur tekið frumkvæðið er hætt við að það setji þetta málefni í sama flokk og eftirlit og skatta – kvaðir en ekki tækifæri.“

Framkvæmdastjóri FA bendir á að kostnaðurinn við þá vinnu sem verður að ráðast í til að fá jafnlaunavottun sé mikill. „Þá vaknar sú spurning hvort velferðarráðuneytið muni veita fyrirtækjum einhvern stuðning eða ráðgjöf til að létta þeim þessa vinnu – fyrst ríkið ætlar að gera þennan kostnað að kvöð.“

Hið opinbera þarf að taka til hjá sér
Ólafur segir einnig að hið opinbera þurfi að taka til í sínum ranni áður en hægt verði að fara af stað með þessa vinnu. „Ýmis skjöl og ferlar sem fylgja staðlinum eru varla tilbúin og hafa ekki verið löguð nægilega vel að íslenskum fyrirtækjum. Þá eru faggildingarmál eru í miklum ólestri á Íslandi. Það mál heyrir undir nýjan ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, en vandinn er að vottunarstofur, sem eiga að sjá um jafnlaunavottunina, eru í vandræðum með að fá faggildingu á skynsamlegu verði. Það skortir þekkingu hjá Einkaleyfastofu til að veita vottunarstofunum faggildingu, þannig að þær hafa verið að sækja þetta erlendis frá, en það felur í sér mun meiri kostnað en ella. Það hefur ekkert verið gert í þessu og þetta verður að leysa ætli menn að koma þessari jafnlaunavottun á koppinn.“

Könnun FA var gerð dagana 18.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 152 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 77, eða 50,6%.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins 16. febrúar 2017

Nýjar fréttir

Innskráning