Meirihluti telur ríkið rukka of mikið

24.02.2016

Konnun-2016-gjaldtaka-fixMeirihluti aðildarfyrirtækja í Félagi atvinnurekenda, eða 57%, telur að gjaldtaka ríkisins sé ekki í samræmi við veitta þjónustu. Þetta er á meðal niðurstaðna könnunar sem FA gerði meðal félagsmanna í janúar síðastliðnum.

Af þeim sem svöruðu segjast 15% mjög ósammála þeirri fullyrðingu að gjaldtaka stjórnvalda sé í samræmi við veitta þjónustu. Ósammála segjast svo 42% til viðbótar. Aðeins 7% telja að gjaldtakan sé í samræmi við þjónustuna og 36% svara hvorki né. Þetta eru svipaðar niðurstöður og í sambærilegri könnun sem gerð var í fyrra.

Eitt af baráttumálum FA undir merkjum Falda aflsins hefur verið að eftirlitsgjöld stjórnvalda séu í samræmi við þá vinnu sem unnin er við eftirlitið. Þannig endurspegli gjöldin raunverulegan kostnað við eftirlit gagnvart einstökum fyrirtækjum. FA hefur gagnrýnt þá tilhneigingu að breyta eftirlitsgjöldum í skatta sem leggjast oft á veltu fyrirtækja, án tillits til þess hvað eftirlit með starfseminni kostar í raun.

Á síðasta ári féll dómur í máli Banana, aðildarfyrirtækis í FA, þar sem ríkið var dæmt til að endurgreiða um 40 milljónir króna vegna oftekinna eftirlitsgjalda. FA hefur í framhaldinu skorað á stjórnvöld að taka til í kerfi eftirlitsgjalda. Það myndi auka kostnaðarvitund, hagkvæmni og aðhald í opinberum rekstri að fyrirtækin greiddu raunverulegan kostnað við eftirlit og ríkið yrði reglulega að sýna fram á að farin væri hagkvæmasta leiðin við að halda úti því eftirliti.

Könnun FA var send forsvarsmönnum 150 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu tæplega 63%.

Tillögur FA um eftirlitsgjöld

Nýjar fréttir

Innskráning