Meirihlutinn telur ríkið ofrukka gjöld

30.03.2017

Meirihluti svarenda í könnun Félags atvinnurekenda meðal félagsmanna, sem var gerð í janúar, telur að gjaldtaka ríkisins sé ekki í samræmi við veitta þjónustu. Þetta er í samræmi við niðurstöður kannana fyrri ára.

Er fullyrðingin „gjaldtaka ríkisins er í samræmi við veitta þjónustu“ var borin undir svarendur sögðust 13% mjög ósammála henni og 38% ósammála. Einungis 2% sögðust mjög sammála og 8% sammála.

Könnun FA var gerð dagana 18.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 152 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 77, eða 50,6%.

Skorað á ríkið að taka til í eftirlitsgjöldunum
Eitt af baráttumálum FA undir merkjum Falda aflsins hefur verið að eftirlitsgjöld stjórnvalda séu í samræmi við þá vinnu sem unnin er við eftirlitið. Þannig endurspegli gjöldin raunverulegan kostnað við eftirlit gagnvart einstökum fyrirtækjum. FA hefur gagnrýnt þá tilhneigingu að breyta eftirlitsgjöldum í skatta sem leggjast oft á veltu fyrirtækja, án tillits til þess hvað eftirlit með starfseminni kostar í raun.

FA hefur skorað á stjórnvöld að taka til í kerfi eftirlitsgjalda. Það myndi auka kostnaðarvitund, hagkvæmni og aðhald í opinberum rekstri að fyrirtækin greiddu raunverulegan kostnað við eftirlit og ríkið yrði reglulega að sýna fram á að farin væri hagkvæmasta leiðin við að halda úti því eftirliti. Þá myndi ríkið komast hjá dýrum málsóknum, en skemmst er að minnast dóms Hæstaréttar í máli Banana, aðildarfyrirtækis FA, þar sem ríkið var dæmt til að endurgreiða háar fjárhæðir vegna oftekinna eftirlitsgjalda.

Fjármálaráðherra bregst við skýrslu FA
Félag atvinnurekenda hefur látið vinna skýrslu um eftirlitsgjöldin, sem kemur út í næstu viku og verður kynnt á morgunverðarfundi 4. apríl. Skýrslan á meðal annars að verða leiðarvísir fyrir ríkið um það hvernig haga má tiltekt í þessum málum.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra mun halda erindi á fundinum þar sem hann bregst við efni skýrslunnar. Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana, segir frá baráttu fyrirtækisins vegna ólögmætra eftirlitsgjalda. Á fundinum munu félagsmenn ennfremur fá leiðbeiningar um það hvernig þeir geti nýtt sér niðurstöður skýrslunnar til að krefjast skýringa á gjaldskrám sem þeir telja of háar eða hækkunum sem þeir telja ómálefnalegar.

Sjá nánari upplýsingar um fundinn og skráningu

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning