Mikilvægt að fara vel yfir skipulag vinnutímans

06.11.2019
Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum FA.

Félagsmenn fylltu fundarsal FA í morgun á fundi þar sem farið var yfir ákvæði kjarasamnings FA og VR um styttingu vinnuvikunnar. Vinnuvika VR-fólks styttist um 45 mínútur um áramót og á samkomulag um fyrirkomulag styttingarinnar að liggja fyrir á hverjum vinnustað 1. desember næstkomandi.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og Jónatan Hróbjartsson lögfræðingur félagsins fóru yfir kjarasamninginn og ýmis mikilvæg atriði varðandi styttinguna. Ólafur hvatti félagsmenn til að nota þetta tækifæri til að fara vel yfir fyrirkomulag vinnutíma í fyrirtækjum sínum. Í einhverjum tilvikum væru fyrirtæki þegar búin að framkvæma styttingu, þar sem virkur vinnutími væri skemmri en þær sjö stundir og sex mínútur á dag, sem samningurinn kveður á um. Mikilvægt væri að skoða vel hvar væru álagspunktar yfir vikuna og hvar væri dauður tími. Kjarasamningur FA væri mjög sveigjanlegur og hægt að skipuleggja dagvinnu á tímabilinu frá sjö að morgni til sjö á kvöldin.

Ekki gera ekki neitt
Kjarasamningurinn kveður á um að hafi samkomulag vinnuveitenda og starfsmanna ekki náðst fyrir 1. desember næstkomandi, styttist hver vinnudagur um níu mínútur. Ólafur hvatti fólk til að taka ekki þann kostinn að gera ekki neitt. Í fyrsta lagi væri þá hætta á að lítil aukning yrði á ánægju starfsfólks, vegna þess að það myndi ekki upplifa níu mínútna styttingu á dag sem sérstök verðmæti. Í öðru lagi væri hætta á að vinnutíminn styttist ekki í raun og yfirvinnugreiðslur myndu hækka. Í þriðja lagi töpuðust þá tækifæri til að hagræða og bæta þjónustu með breyttu skipulagi.

Jónatan fór vandlega yfir ákvæði kjarasamningsins um vinnutíma og ýmis álitamál sem komið hafa upp.

Þarf ekki að vera eins útfært fyrir alla starfsmenn
Jónatan fór í sínu innleggi yfir ákvæði samnings FA og VR. Hann benti á að vinnutímastytting þyrfti ekki að vera eins fyrir alla starfsmenn. Hún gæti verið útfærð með mismunandi hætti eftir deildum eða hópum starfsmanna og jafnframt væri til í dæminu að gera einstaklingsbundið samkomulag við starfsmenn um breyttan vinnutíma, sem væri þá gengið frá með viðauka við ráðningarsamning. Hann ræddi einnig ýmis álitamál sem komið hafa upp hjá félagsmönnum, t.d. vegna fastlaunasamninga, tímavinnufólks, og vaktavinnu.

Félagsmenn spurðu ýmissa spurninga um útfærslu vinnutímastyttingarinnar. Jónatan minnti á að starfsfólk FA er ævinlega til staðar til að svara spurningum félagsmanna um útfærsluatriði í kjarasamningum.

Glærur Ólafs
Glærur Jónatans

Nýjar fréttir

Innskráning