MS-málið fái flýtimeðferð

16.12.2014

Félag atvinnurekenda leggur áherslu á að mál Mjólkurbúsins Kú gegn Mjólkursamsölunni, sem verður nú rannsakað á nýjan leik hjá Samkeppniseftirlitinu, fái flýtimeðferð.

 

Samkeppniseftirlitið hafði sektað MS um 370 milljónir króna fyrir að selja Kú hrámjólk á hærra verði en keppinautar Kú, sem eru tengdir MS, þurftu að greiða. Við munnlegan málflutning fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði MS fram í fyrsta sinn lykilgagn í málinu, samning MS og Kaupfélags Skagfirðinga frá 2008. Af hálfu Samkeppniseftirlitsins hefur komið fram að MS hafi aldrei vísað til þessa samnings eða greint eftirlitinu frá honum, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um skýringar og gögn við rannsókn málsins.

 

Áfrýjunarnefndin segir að þótt ekki hafi komið fram haldbærar skýringar MS á því hvers vegna samningurinn hafi ekki verið lagður fram við meðferð málsins, né grundvallargögn um efndir hans og uppgjör hjá áfrýjunarnefndinni, telji nefndin sér skylt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að koma málinu í þann farveg að upplýst sé um þessi atriði. Við málflutning fyrir nefndinni hafi málið ekki skýrst frekar. Þess vegna geti nefndin ekki tekið efnislega afstöðu til málsins og ekki verði komist hjá því að ógilda úrskurð Samkeppniseftirlitsins og leggja fyrir það að taka afstöðu til málsins á ný eftir nýja rannsókn. 

 

FA hefur lagt fram tillögur um aukna skilvirkni við afgreiðslu samkeppnismála undir merkjum Falda aflsins. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir orka mjög tvímælis að öflug, markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að tefja málsmeðferðina með því að leyna fyrir Samkeppniseftirlitinu gögnum sem síðan séu dregin upp við málsmeðferðina hjá áfrýjunarnefnd. „Fyrir smærri keppinauta Mjólkursamsölunnar er lykilatriði að hin nýja rannsókn fari ekki í hefðbundinn margra mánaða farveg hjá Samkeppniseftirlitinu heldur fái málið flýtimeðferð þannig að endanleg niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Það er sömuleiðis brýnt hagsmunamál fyrir neytendur, sérstaklega í ljósi þess að meint brot MS hafa verið á fleiri sviðum. Hjá Samkeppniseftirlitinu er til meðferðar sambærileg kvörtun frá Kú vegna sölu á rjóma og brýnt að niðurstaða í því máli fáist sem fyrst,“ segir Ólafur.

 

Viðtal Kastljóss við framkvæmdastjóra FA og lögmann MS

 

Tilkynning Samkeppniseftirlitsins um málið

 

Tillögur FA um skilvirkari afgreiðslu samkeppnismála

Nýjar fréttir

Innskráning