Nær að tryggja að farið sé eftir rafrettulögum en að herða þau

02.10.2019

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bréf, í tilefni af umræðum og tillögum um að herða löggjöf um rafrettur og tengdar vörur í framhaldi af lungasjúkdómafaraldri í Bandaríkjunum, sem einkum er rakinn til notkunar á ólöglegum vökvum fyrir rafrettur.

Félagið bendir í bréfinu á að allt bendi til að þau alvarlegu tilvik um lungnasjúkdóma sem komið hafa upp í Bandaríkjunum megi langflest rekja til notkunar ólöglegra rafrettuvökva sem keyptir voru á svörtum markaði. Félagið rifjar einnig upp að ýtarlegt og strangt regluverk er í gildi hér á landi, sem tekur mið af löggjöf Evrópusambandsins og ýmissa nágrannalanda um rafrettur. Lögin um rafrettur kveða meðal annars á um eftirlit stjórnvalda með rafrettum og vökvum til að tryggja öryggi neytenda og bann við sölu til barna og unglinga.

Svartamarkaðsvara lýtur engu eftirliti
„Ekkert af þessu eftirliti hefur farið fram þegar einstaklingar kaupa rafrettuvökva á svörtum markaði þar sem engin vissa er fyrir því hvað sé í honum. Því væri réttast af yfirvöldum að brýna fyrir fólki að eiga einungis í viðskiptum við rafrettuverslanir sem eru eftirlitsskyldar og fara eftir gildandi lögum og reglum. Félagsmenn FA leggja ríka áherslu á að selja eingöngu vörur sem uppfylla CE-staðla og skilyrði laga og reglna. Áður en lög nr. 87/2018 tóku gildi höfðu sömu fyrirtæki að eigin frumkvæði framfylgt 18 ára aldurstakmarki við sölu rafrettna og tengdra vara og gera það að sjálfsögðu áfram,“ segir í bréfi FA.

Félagið vísar til ummæla ráðherra um að þurfa kunni „harðari löggjöf og stífari mörk utan um þessa starfsemi.“ Í bréfinu er einnig vísað til viðtals við Ölmu Möller landlækni, þar sem hún sagðist hafa lagt þrennt til við ráðherra, að eftirlit með núverandi löggjöf yrði hert, að bragðbættir rafrettuvökvar yrðu bannaðir og að merkingar á rafrettum yrðu bættar. Landlæknir vísaði meðal annars til niðurstaðna könnunar, sem sýnir að 15% tíundubekkinga, þ.e. 15-16 ára barna, noti rafrettur.

FA tekur undir að sú niðurstaða sé áhyggjuefni, en ljóst megi vera að ungmenni nálgist rafrettur og tengdar vörur með ólögmætum hætti. FA tekur því undir það með landlækni að gott eftirlit með því að farið sé að lögum sé nauðsynlegt.

Bann við bragðefnum getur fært vörurnar á svarta markaðinn
Félagið rifjar upp að í gildandi lögum sé bannað að hafa á umbúðum rafrettna eða áfyllinga texta eða myndmál, sem höfðað geti sérstaklega til barna og ungmenna. Þá séu auglýsingar á vörunum bannaðar. „Að mati landlæknis er réttast að banna veipvökva með einkennandi bragðefnum. Slíkt hefur þó ekkert með heilsuvernd að gera og kemur heldur ekki í veg fyrir að einstaklingar verði sér úti um slíka vökva. Ef bragðbættir veipvökvar verða bannaðir er hætt við því að einstaklingar, þar með talin börn og unglingar, nálgist með ólögmætum hætti slíka vökva, sem falla þá ekki undir opinbert eftirlit. Bragðbættir vökvar sem búið er að smygla inn til landsins lúta ekki lögum um rafrettur og munu þ.a.l. lagalegar takmarkanir ekki koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar afhendi börnum og ungmennum bragðbætta vökva. Afleiðingarnar gætu orðið þveröfugar við það sem ætlunin er,“ segir í bréfi FA.

Þá rifjar FA upp að heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð nr. 255/2019, sem sett er með stoð í 16. gr. laga nr. 87/2018. Reglugerðin kveður á um aðvörunarmerkingar á rafrettum og tengdum vörum sem innihalda nikótín, sem taka mið af áðurnefndri Evrópulöggjöf. „Vandséð er hvernig hægt er að bæta við merkingum um mögulega skaðsemi vara, sem falla undir skilyrði laganna um innihald og eftirlit, án þess að nokkrar vísindalegar vísbendingar liggi fyrir um að vörurnar séu í raun hættulegar heilsu fólks,“ segir í bréfinu.

Ákvarðanir byggi á haldbærum upplýsingum
„Eins og landlæknir benti á í Kastljósviðtalinu eru rafrettur mun hættuminni valkostur en tóbaksreykingar að því gefnu að keyptir séu vökvar og tæki sem lúta eftirliti stjórnvalda og uppfylla strangar gæðakröfur. Í gildi er strangt regluverk um rafrettur og tengdar vörur til að tryggja gæði og öryggi varanna og að börn undir lögaldri geti ekki keypt þær. Félag atvinnurekenda leggur áherslu á að stjórnvöld taki ekki nýjar, íþyngjandi ákvarðanir um viðskipti með rafrettur og tengdar vörur nema á grunni haldbærra og sannreyndra upplýsinga. Heillavænlegast væri að heilbrigðisráðherra biði með að  hafa í einhverju óðagoti frumkvæði að „harðari löggjöf og stífari mörkum“ fyrr en öll kurl eru komin til grafar hvað varðar lungnasjúkdómafaraldurinn í Bandaríkjunum,“ segir í niðurlagi bréfs FA. Félagið lýsir sig reiðubúið til viðræðna við ráðuneytið um útfærslu betra eftirlits með núverandi löggjöf.

Bréf FA til heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning