Næsta örnámskeið um hagnýta lögfræði í fyrirtækjarekstri fjallar um lög og reglur um áreiðanleikakannanir vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Námskeiðið verður haldið á Zoom kl. 10-10.30 þriðjudaginn 29. nóvember. Umsjón með því hefur Birkir Guðlaugsson lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra.
Ýmsir félagsmenn FA hafa rekið sig á að löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi leggur á þá býsna íþyngjandi skyldu til að afla upplýsinga um viðskiptavini sína. Birkir fer yfir hvaða reglur gilda, til hvaða fyrirtækja þær ná, hvaða upplýsinga skuli aflað og hvernig.
Örnámskeið FA eru stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, fjármálastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá svo sent fundarboð með hlekk til að taka þátt í námskeiðinu með góðum fyrirvara.