Næsta örnámskeið: Tollflokkun – hvernig verja innflytjendur sig fyrir bakreikningum vegna aðflutningsgjalda?

26.09.2022
Arnar Heimir Lárusson

Næsta námskeið í örnámskeiðaröð FA um hagnýta lögfræði í rekstri fyrirtækja verður haldið 4. október kl. 10-10.30. Umfjöllunarefnið er tollflokkun og hvernig innflytjendur geti varið sig fyrir bakreikningum vegna aðflutningsgjalda.

Nokkrir félagsmenn í FA hafa á síðustu árum fengið háa bakreikninga frá tollayfirvöldum vegna meintrar rangrar tollflokkunar. Hefur það í sumum tilfellum gerst þrátt fyrir að flutt hafi verið inn á sömu tollanúmerum og útflytjandi í viðskiptalandi notar, og jafnvel þótt farið hafi verið að ráðum starfsmanna tollstjóra um tollflokkun vörunnar. Veldur þetta iðulega miklu og óafturkræfu tjóni fyrir viðkomandi fyrirtæki og því til mikils að vinna að afstýra slíku. Á námskeiðinu verður farið yfir almenna tollskyldu, skyldur sem hvíla á innflytjendum, heimildir tollyfirvalda til að beita viðurlögum og hvenær sé skynsamlegt að leita eftir bindandi áliti tollayfirvalda um tollflokkun, hvert gildi slíkra álita sé og hvernig fyrirtæki eigi að bera sig að við að afla þeirra.

Umsjón með námskeiðinu hefur Arnar Heimir Lárusson. Arnar er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Arnar er með meistaragráðu í lögfræði og starfar nú hjá MAGNA lögmönnum, sem FA á í góðu samstarfi við. Auk starfa sinna hjá MAGNA starfaði hann áður hjá umboðsmanni Alþingis meðfram námi.

Örnámskeið FA eru stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. Námskeiðin henta framkvæmdastjórum, fjármálastjórum, mannauðsstjórum og fleiri stjórnendum. Þau eru opin félagsmönnum í FA og haldin kl. 10-10.30.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér að neðan. Skráðir félagsmenn fá svo sendan hlekk til að taka þátt í námskeiðinu með góðum fyrirvara.

Nýjar fréttir

Innskráning