Næsta örnámskeið: Uppsagnir og starfslok

14.09.2022
Guðný Hjaltadóttir

Félag atvinnurekenda efnir í haust til annarrar lotu örnámskeiða fyrir félagsmenn um hagnýta lögfræði í fyrirtækjarekstri. Með þessu er verið að bregðast við fyrirspurnum og ábendingum félagsmanna, sem nefndu m.a. í þjónustukönnuninni okkar fyrr á árinu að þeir vildu fá meiri fræðslu um lögfræðileg mál í rekstrinum. Fyrsta lota námskeiðanna tókst mjög vel og fékk skrifstofa FA þakkir frá mörgum félagsmönnum, sem töldu námskeiðin afar gagnleg.

Námskeiðin eru stutt vefnámskeið, haldin á Zoom með svokölluðu 20+10-fyrirkomulagi; 20 mínútna fyrirlestur og svo tíu mínútur til að svara spurningum og ábendingum. Þannig er markmiðið að stjórnendur þurfi ekki að taka sér meira en hálftíma í hvert námskeið. 

Fyrsta námskeið haustins verður haldið þriðjudaginn 20. september kl. 10 og fjallar um uppsagnir og starfslok. Álitamál vegna þessara atriða eru á meðal algengustu mála sem koma inn á borð lögfræðiþjónustu FA. Hvaða reglur gilda um uppsagnarfrest? Hvaða reglur gilda t.d. ef starfsmaður verður veikur á uppsagnarfresti eða ef hann hverfur frá störfum áður en uppsagnarfresti er lokið?  Þarf að rökstyðja uppsögn starfsmanns? Hvaða reglur gilda um uppgjör launa, orlofs og uppbóta?
Umsjón með námskeiðinu hefur Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur FA, sem er félagsmönnum að góðu kunn.

Félagsmenn geta skráð sig á námskeiðið hér að neðan og fá þá sendan hlekk með góðum fyrirvara.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning