Neyðarástand í orkumálum

07.12.2023

Félag atvinnurekenda segir neyðarástand uppi í orkumálum þjóðarinnar, en fyrir Alþingi liggur frumvarp um að heimilt verði að forgangsraða raforku til heimila og smærri fyrirtækja vegna yfirvofandi orkuskorts. FA hvetur Alþingi til að einfalda regluverk vegna leyfisveitinga fyrir nýjar virkjanir og segir að þingið standi frammi fyrir því verkefni að setja nokkurs konar neyðarlög, sem flýta leyfisveitingum vegna tiltekinna virkjanakosta í nýtingarflokki rammaáætlunar.

Ákvæðum þeim, sem frumvarpinu er ætlað að bæta við raforkulögin, hefur verið líkt við neyðarhemil sem Orkustofnun geti gripið í. „Frumvarpið er nauðsynlegt vegna þess sem ekki er hægt að kalla annað en neyðarástand í orkumálum þjóðarinnar,“ segir í umsögn FA um frumvarpið. „Félag atvinnurekenda hefur bent á það á undanförnum misserum, ásamt fjölmörgum öðrum aðilum í atvinnulífinu, að ekki sé nóg gert til að virkja hina grænu orku sem Íslendingar eiga í ríkum mæli og að með því sé vegið að orkuöryggi atvinnulífsins. Þá sé full ástæða til þess að skoða tengingar íslenzka orkukerfisins við kerfi annarra Evrópuríkja með sæstreng, sem þátt í að tryggja orkuöryggi. Í greinargerð frumvarps þessa er bent á þá sérstöðu íslenzka raforkukerfisins að það er lokað, en flest önnur Evrópuríki eiga þann kost að flytja inn raforku.“

FA bendir á að nú sé svo komið að umframeftirspurn sé eftir raforku og ekki til orka til nýrra verkefna í atvinnuuppbyggingu. „Bág staða miðlunarlóna, sem vísað er til í frumvarpinu, er ekki stóra málið hér, heldur að Ísland, sem eitt sinn var í fararbroddi, er að dragast aftur úr nágrannaríkjunum í nýframkvæmdum við virkjun grænnar, endurnýjanlegrar orku. Þetta er staða sem er allsendis óviðunandi fyrir íslenzkt atvinnulíf og samfélag, ekki sízt í ljósi áforma um orkuskipti og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og útblæstri gróðurhúsalofttegunda,“ segir í umsögninni.

FA er almennt ekki þess hvetjandi að opinberir aðilar grípi inn í gangverk markaðarins en í þessum efnum telur félagið nauðsynlegt að setja í lög tímabundna heimild til að forgangsraða orku til heimila og smærri fyrirtækja og tryggja þannig orkuöryggi þeirra.

„Slík heimild getur þó aldrei orðið annað en tímabundin og er skammgóður vermir. Til lengri tíma þarf að virkja fallvötn, jarðhita og vind til að bæta úr orkuskorti og mæta þörfum íslenzks samfélags fyrir hreina og endurnýjanlega orku. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að orkuöryggi þjóðarinnar sé margþætt langtímaverkefni og að á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sé unnið að lagabreytingum sem hafi þann tilgang að tryggja orkuöryggi almennings,“ segir í umsögn FA til efnahags- og viðskiptanefndar. „FA hvetur nefndina til að veita slíkum lagabreytingum brautargengi og leggja sitt af mörkum m.a. til að endurskoða regluverk leyfisveitinga vegna virkjana til einföldunar þannig að hraða megi því að orkufyrirtæki geti nýtt hina hreinu orku landsins. Þótt verkefnið sé sagt til langs tíma er ekki mikill tími til stefnu, ef tryggja á orkuöryggi til framtíðar. Að mati FA stendur þingið frammi fyrir því verkefni að setja nokkurs konar neyðarlög, sem flýta leyfisveitingum vegna tiltekinna virkjanakosta í nýtingarflokki rammaáætlunar, eigi ekki illa að fara.“

FA leyfir sér að benda á tvískinnunginn í málflutningi þeirra sem tala fyrir grænni atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum en hafa um leið allan fyrirvara á nýjum virkjanakostum og vilja hafa leyfisveitingaferlið sem þyngst og flóknast.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

1. maí 2024

Innskráning