Neytendur myndu spara yfir 160 milljónir á niðurfellingu snakktolls – hvað verndar sá tollur?

10.12.2015

Tollað snakkSnakk er bara snakk. Eða er það ekki annars? Er það eitthvað annað en smekkur neytandans eða dagsformið sem ræður því hvort fólk grípur maísflögur úr snakkhillunni eða kartöfluflögur? Og ætli sé allur munur á því fyrir neytandann hvort kartöfluflögurnar eru búnar til úr sneiddum kartöflum, flögum eða kartöflumjöli?

Svo mikið er víst að í augum löggjafans, sem ákveður tolla á innfluttan mat, er snakk ekki það sama og snakk. Hér eru nokkur dæmi um mismunandi tollflokka úr snakkhillunni.

  • Innflutt snakk úr niðursneiddum kartöflum. Ber 59% toll.
  • Innflutt snakk framleitt úr kartöfluflögum. Ber ekki toll ef það er flutt inn frá ESB, annars 20% toll.
  • Innflutt maíssnakk, búið til úr deigi. Það er framleitt í Evrópusambandinu og ber þá engan toll. Ef þetta tiltekna maíssnakk væri framleitt í Bandaríkjunum bæri það 20% toll.
  • Maíssnakk, framleitt í Bandaríkjunum úr pressuðu poppkorni. Það ber 7,5% toll.
  • Snakk framleitt á Íslandi – úr innfluttu kartöflumjöli. Það ber skiljanlega engan toll.

Allt þetta snakk er í beinni samkeppni við allt hitt snakkið; stillt upp í sömu hillunni fyrir sömu neytendurna. Hvers vegna það ber svona gríðarlega mismunandi tolla getur enginn útskýrt, enda standa ekki til þess nein skynsamleg rök. Eins og staðan er núna eru engir tollar á flestu snakki sem flutt er inn til Íslands frá Evrópusambandinu, nema þessum eina tollflokki sem inniheldur snakk búið til úr kartöflum. Það ber 59% ofurtoll.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt til að þessi 59% tollur verði felldur niður. Sú aðgerð ein og sér myndi spara neytendum 162 milljónir króna, miðað við innflutningstölur frá nóvember 2014 til október 2015.

Hörð viðbrögð innlendra framleiðenda – hvað er verið að vernda?
Í viðtali á Bylgjunni síðastliðinn föstudag upplýsti Willum Þór Þórsson, nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, að nefndin hefði fengið mikil viðbrögð frá innlendum snakkframleiðendum, sem flyttu inn hráefni í framleiðslu sína sem bæru tolla. Nefndin þyrfti því að skoða „víðtækari hagsmuni.“

Ofurtollar á innflutta matvöru eru yfirleitt réttlættir með því að verið sé að vernda innlenda búvöruframleiðslu. Það getur ekki átt við um snakktollana. Innlendir snakkframleiðendur, Iðnmark og Þykkvabæjar, anna aðeins litlu broti innanlandsmarkaðar fyrir snakk. Í kartöflusnakkið þeirra er notað lítið sem ekkert af innlendum kartöflum, heldur er það eftir því sem næst verður komist að stærstum hluta búið til úr innfluttu kartöflumjöli sem ber lága eða enga tolla. Og séu einhverjir tollar á aðföngum til þessara tveggja fámennu vinnustaða sem anna litlu broti af innanlandseftirspurn er algjörlega fráleitt að rukka neytendur um hundruð milljóna króna í toll af öllu hinu snakkinu sem borðað er á Íslandi; það er nær að afnema líka tollana af aðföngunum.

Hér er því ekki verið að vernda íslenska kartöflubændur. Það eina sem er verið að vernda er iðnaðarframleiðsla tveggja fyrirtækja, að mestu leyti úr erlendum aðföngum. Verndartollar fyrir iðnaðarframleiðslu áttu hins vegar fyrir löngu að heyra sögunni til. Neytendur bera tjónið af þessari vernd fyrir tvo litla vinnustaði og greiða alltof hátt verð fyrir  innfluttar vörur.

Lestu meira um matartolla í nýlegri skýrslu Félags atvinnurekenda

 

 

Nýjar fréttir

27. nóvember 2024
26. nóvember 2024

Innskráning