Stjórn Félags atvinnurekenda er óbreytt eftir aðalfund félagsins, sem haldinn var í gær. Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna rann út, en allir gáfu kost á sér til endurkjörs til tveggja ára og voru sjálfkjörnir.
Þetta eru Anna Kristín Kristjánsdóttir, einn af eigendum Hvíta hússins, sem verið hefur varaformaður FA undanfarin ár, Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Innness, og Guðmundur R. Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Xco.
Á aðalfundi í fyrra voru kjörin til tveggja ára þau Guðrún Ragna Garðarsdóttir formaður, Friðrik Ingi Friðriksson og Lilja Dögg Stefánsdóttir.
Í kjararáð FA voru kosin þau Þorvaldur Sveinn Guðmundsson, verkefnastjóri og eigandi hjá Reykjafelli, María Bragadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Ósa og Eiríkur Guðleifssson, fjármálastjóri Hvíta hússins. Auk þeirra eiga formaður og framkvæmdastjóri félagsins sæti í kjararáði.