Óforsvaranlegt að Alþingi samþykki búvörusamninga

11.07.2016

IMG_0302Félag atvinnurekenda telur óforsvaranlegt með öllu að Alþingi samþykki búvörusamninga, sem fela í sér að einokunarstaða Mjólkursamsölunnar verði fest enn frekar í sessi. FA hvetur Alþingi til að beita sér fyrir því að MS fái aukna innlenda og erlenda samkeppni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli MS komi fram að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með alvarlegum hætti og skaðað hagsmuni keppinauta sinna, neytenda og bænda. Þá hafi fyrirtækið komist upp með að tefja úrlausn málsins með því að leyna mikilvægum gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu.

„Í búvörusamningi um starfsskilyrði nautgriparæktar eru ákvæði sem festa enn frekar í sessi einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar og tengdra fyrirtækja og þá undanþágu frá samkeppnislögum sem mjólkuriðnaðurinn hefur notið. Í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins getur Alþingi ekki leyft sér að staðfesta þann samning óbreyttan. Við ítrekum það sem FA hefur áður sagt; að þingið samþykki hvorki samninginn né frumvarp landbúnaðarráðherra um búvörusamninga heldur leggi fyrir ráðherrann að semja upp á nýtt við bændur. Alþingi hefur löggjafarvaldið og hefur í hendi sér hvert framhald þessa máls verður. Bændasamtök Íslands segja löggjafarvaldinu ekki fyrir verkum, ekki ráðherrann heldur,“ segir Ólafur.

Tollar lækki til að efla erlenda samkeppni við MS
Hann segir að FA hvetji stjórnvöld til að búa svo um hnútana að MS fái aukna samkeppni, bæði innlenda og erlenda, og bendir á að í áliti sínu taki Samkeppniseftirlitið fram að þegar samkeppni frá Mjólku I var fyrir hendi hækkaði verð til bænda en lækkaði til neytenda. Samkeppnin sé þannig nauðsynlegt aðhald sem komi beint við budduna hjá bændum og almenningi.

„Í samningum um starfsskilyrði nautgriparæktar er önnur grein, sem kveður á um að hækka skuli tolla á tilteknum innfluttum mjólkurvörum, sérstaklega ostum. Þetta stuðlar að því að styrkja enn frekar einokunarstöðu MS og er þvert á tillögur sem hafa verið unnar fyrir ríkisstjórn Íslands,“ segir Ólafur. „Það er sem sagt búið að semja við eigendur MS um að sérstakur skattur verði lagður á þá sem eru í samkeppni við markaðsráðandi fyrirtæki sem ítrekað hefur brotið samkeppnislög. Þetta er fullkomlega öfugsnúið. Verkefni Alþingis við þessar aðstæður er þvert á móti að auka samkeppni og þær kröfur sem gerðar eru til markaðsráðandi fyrirtækja, ekki að draga úr samkeppni og vígbúa enn frekar hið markaðsráðandi afl.“

Hann bendir á að Samráðsvettvangur um aukna hagsæld hafi lagt til að tollar á mjólkurvörum yrðu lækkaðir um helming og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi unnið skýrslu fyrir landbúnaðarráðherra þar sem lagt er til að „tollar verði lækkaðir, svo að framleiðsla grannlandanna verði samkeppnisfær við íslenskar mjólkurafurðir hér á landi.“

„Stjórnvöld hafa til þessa skellt skollaeyrum við þessum tillögum. Nú er kominn tími til að menn fari að hlusta og að einokunarrisinn fái aukna samkeppni,“ segir Ólafur.

Samkeppnisyfirvöld íhugi að skipta MS upp
Ólafur segir að Alþingi eigi að beita sér fyrir því að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, eins og Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra hefur til dæmis tekið undir.

„Yfirlýsingar forsvarsmanna MS um að neytendur verði einfaldlega látnir taka höggið af refsingu samkeppnisyfirvalda fyrir lögbrot fyrirtækisins hljóta líka að vekja fólki ugg. Það að menn skuli leyfa sér að tala svona sýnir í raun í hversu yfirgnæfandi einokunarstöðu MS er; þar hafa menn engar áhyggjur af því að veikja samkeppnisstöðu sína með því að velta stjórnvaldssekt yfir á neytendur. Við hljótum að vera komin að þeim tímapunkti að samkeppnisyfirvöld íhugi að nýta heimildir sínar lögum samkvæmt til að skipta upp einokunarrisanum á mjólkurmarkaði,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning