Ráðherra sjái til þess að upplýsingagjöf Íslandspósts sé í samræmi við reglur

08.02.2017

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra bréf og beðið hann um að hlutast til um að upplýsingagjöf og reikningsskil Íslandspósts séu í samræmi við lög og reikningsskilastaðla, þannig að því sé rækilega haldið til haga hvernig fyrirtækið aðskilur einkaréttarstarfsemi sína og samkeppnisrekstur. Ráðherra fer með allt hlutafé í Íslandspósti og tilnefnir alla stjórnarmenn í fyrirtækinu.

Í bréfi félagsins er vitnað til úttektar á upplýsingagjöf Íslandspósts, sem ráðgjafarfyrirtækið Fjárstoð vann fyrir FA og aðildarfyrirtækið Póstmarkaðinn í maí á síðasta ári. Meðal niðurstaðna úttektarinnar er eftirfarandi:

  • Ófullnægjandi niðurbrot rekstrartekna og rekstrargjalda, sem gerir að verkum að lesandi ársreikninga getur ekki áttað sig á vægi einstakra þátta í rekstrinum.
  • Ófullnægjandi reikningsskil fyrir mismunandi starfsþætti fyrirtækisins, þ.e. einkaréttarstarfsemi, samkeppnisrekstur innan alþjónustu og samkeppnisrekstur utan alþjónustu. Rekstrarþáttayfirlit var ekki birt í ársreikningi ÍSP í nokkur ár. Nú er það komið aftur inn í ársskýrslu fyrirtækisins en ekki sem hluti af ársreikningnum og er því ekki háð eftirliti endurskoðenda. Þá hefur lýsing á aðferðum við skiptingu í starfsþætti verið felld út.
  • Ófullnægjandi sundurliðun rekstrartekna og rekstrargjalda undir liðnum „eignarekstur“ sem inniheldur rekstur dótturfélaga. Tekjur og gjöld dótturfélaganna eru færð á þennan lið í stað þess að færast undir „samkeppni utan alþjónustu“ sem dótturfélögin stunda þó í öllum tilvikum. Þetta gerir að verkum að engin leið er að átta sig á raunverulegri afkomu samkeppnisrekstrar Íslandspósts og þeirri meðgjöf sem hann fær frá móðurfélaginu. Færð eru rök fyrir því að fjármögnun samkeppnisrekstrar í dótturfélögum ÍSP komi frá móðurfélaginu, en dótturfélögin njóti m.a. afar hagstæðra lánakjara frá ÍSP, sem keppinautum þeirra bjóðast ekki á fjármagnsmarkaði.
  • „Leiðréttingarfærslur“ sem færa rekstrargjöld af samkeppnisrekstri yfir á einkaréttarstarfsemi ÍSP eru ekki aðgreindar í starfsþáttayfirliti og þannig gefin villandi mynd af afkomu starfsþáttanna.
  • Afkoma og reikningar dótturfélaga ÍSP gefa til kynna að rekstur þeirra hafi verið fjármagnaður af móðurfélaginu, á sama tíma og samkeppnisrekstur innan móðurfélagsins sé rekinn með umtalsverðu tapi. Fjárstoð kemst því að þeirri niðurstöðu að fjármögnun samkeppnisrekstrar, jafnt utan sem innan móðurfélagsins, komi í raun frá starfsemi í einkarétti eða gengið sé á eigin fé ÍSP, sem byggt hafi verið upp af þeirri starfsemi í áranna rás. Draga megi í efa að það samræmist lögum um póstþjónustu.
  • Í ársreikningum Íslandspósts má finna „fjölmörg dæmi þess að mikilvægum og jafnvel lögboðnum upplýsingum sé haldið eftir, eða framsetning svo villandi að svo gæti virst sem um ásetning sé að ræða,“ eins og það er orðað í minnisblaðinu frá Fjárstoð.

Í bréfi FA er vísað til þess að Íslandspóstur hefur á undanförnum árum þanið út starfsemi sína í skyldri og óskyldri starfsemi, oft í harðri samkeppni við einkafyrirtæki. „Fyrirtækið er jafnframt bundið af ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um að samkeppnisstarfsemi sé ekki niðurgreidd af tekjum úr einkaréttarrekstrinum. Nefna má í þessu sambandi að fjöldi kæra á hendur Íslandspósti er til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og er fyrirtækið í sáttameðferð hjá samkeppnisyfirvöldum,“ segir í bréfinu. „Það er því afar mikilvægt að upplýsingagjöf og reikningsskil fyrirtækisins séu með þeim hætti að sýnt sé fram á að lögum og reglum sé fylgt og sanngjarnir samkeppnishættir stundaðir.“

Félag atvinnurekenda fer þess á leit við fjármálaráðherra í lok bréfsins að hann taki meðfylgjandi minnisblað frá Fjárstoð til gaumgæfilegrar skoðunar. „FA fer fram á að ráðherra hlutist til um að stjórn Íslandspósts tryggi að starfsemi félagsins uppfylli skilyrði laga um póstþjónustu og samkeppnislaga hvað varðar upplýsingagjöf og meðferð þeirra fjármuna sem eiga uppruna sinn í einkaréttarstarfsemi Íslandspósts,“ segir í bréfinu.

Bréf FA til ráðherra

Minnisblað Fjárstoðar

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning