Ríkið taki til í eftirlitsgjöldum

04.11.2015

IMG_5502Félag atvinnurekenda fagnar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær, þar sem ríkissjóði var gert að endurgreiða Banönum ehf. tæplega 40 milljónir króna vegna eftirlitsgjalda, sem ekki áttu sér lagastoð.

Niðurstaða dómsins var að eftirlitsgjöld vegna eftirlits með innfluttum plöntum endurspegluðu ekki raunverulegan kostnað vegna eftirlitsins og í raun væri verið að láta innflutningsfyrirtæki borga fyrir verkþætti hjá Matvælastofnun sem kæmu innflutningi á plöntum ekkert við.

Í dómnum segir meðal annars: „Þegar fyrirkomulag slíkrar gjaldtöku er ákveðið, og afstaða er tekin til fjárhæðar gjaldsins, verður jafnframt að gæta þess að tekjurnar séu ekki hærri en svo að þær standi straum af kostnaði við þá þjónustu eða eftirlitsaðgerð sem gjaldtökuheimildin nær til. Þannig er stjórnvaldi í meginatriðum einungis heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem stendur í nánum, efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldið á að standa straum af kostnaði við samkvæmt gjaldtökuheimildinni. Gangi gjaldtakan lengra að þessu leyti hefur verið talið að hún verði að vera reist á lagaheimild sem fullnægi kröfum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Að auki verður við útfærslu á gjaldtöku af þessu tagi að gæta þess að bein tengsl standi milli skyldu til að greiða þjónustugjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem viðkomandi stofnun veitir hverjum gjaldanda.“

Félag atvinnurekenda hefur lengi gagnrýnt opinbera gjaldtöku vegna eftirlits, þar sem fjárhæð gjaldanna endurspeglar engan veginn það eftirlit sem fer fram eða þá þjónustu sem fyrirtækjum er veitt. Meirihluti aðildarfyrirtækja FA telur gjaldtöku ríkisins ekki í samræmi við veitta þjónustu. Vaxandi tilhneiging er til að innheimta eftirlitsgjöld í formi skatta sem nema t.d. ákveðinni prósentu af veltu eða tollverði, eins og var í tilviki Banana, í stað þess að miða við raunverulegan kostnað. Nefna má dæmi af lyfjaeftirlitsgjaldinu, en dæmi eru um að fyrirtæki sem greiða tugi milljóna í lyfjaeftirlitsgjald sjái framan í eftirlitsmenn Lyfjastofnunar á nokkurra ára fresti. Félagið hefur gert tillögu, undir merkjum Falda aflsins, um að lögum verði breytt og gjaldtakan færð til samræmis við veitta þjónustu.

„Ríkið verður, meðal annars í framhaldi af þessum dómi, að fara að taka til í eftirlitsgjöldunum,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Það myndi auka kostnaðarvitund, hagkvæmni og aðhald í opinberum rekstri að fyrirtækin greiddu raunverulegan kostnað við eftirlit og ríkið yrði reglulega að sýna fram á að farin væri hagkvæmasta leiðin við að halda úti því eftirliti. Stjórnsýslan á að vera fagleg og henni er engin vorkunn að reikna út kostnað af veittri þjónustu og innheimta þann kostnað en ekki það sem umfram er. Þeir sem njóta þjónustunnar eru þar með þeir sem greiða fyrir hana að því marki sem að hún hefur í för með sér útgjöld hins opinbera.“

Tillögur FA um breytingar á eftirlitsgjöldum

Niðurstöður könnunar FA meðal félagsmanna

Dómurinn í máli Banana gegn ríkinu

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning