„Samfélagsábyrgð er góður bisness“

20.11.2014
Svanhildur Sigurðardóttir
Svanhildur Sigurðardóttir

Líflegar umræður urðu um samfélagsábyrgð fyrirtækja á félagsfundi FA í morgun. Frummælendur voru Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, og Svanhildur Sigurðardóttir, samfélags- og samskiptastjóri Ölgerðarinnar.

 

Ketill benti í erindi sínu meðal annars á nýlegar skýrslur og rannsóknir sem sýndu fram á samhengi milli rekstrarárangurs fyrirtækja og þess að gefa samfélagsábyrgð gaum. Samfélagsábyrgð snerist ekki bara um að fyrirtæki styrktu góðgerðamál, heldur um langtímahugsun um sameiginlegan hag fyrirtækisins og samfélagsins. „Samfélagsábyrgð er góður bisness,“ sagði Ketill.

 

Hann sagðist telja að íslenzk fyrirtæki ættu margt ógert á sviði samfélagsábyrgðar og vísaði til kannana, sem sýna að 48% Íslendinga telja fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Í Evrópu er meðaltalið 52% en í Danmörku 85%, svo dæmi sé nefnt.

Ketill Berg Magnússon
Ketill Berg Magnússon

Svanhildur fór yfir nokkur af samfélagsverkefnum Ölgerðarinnar, en starfsfólk fyrirtækisins var allt virkjað til að koma með 100 hugmyndir af slíkum verkefnum. Eitt dæmi sem hún tiltók var um hvernig hægt væri að minnka akstur við dreifingu vara fyrirtækisins, bæði til að lækka kostnað og hlífa umhverfinu. Með aðgerðum á borð við endurskipulagningu akstursleiða og gjaldi á samdægurspantanir viðskiptavina tókst að fækka eknum kílómetrum um 10%, eða 40.000 kílómetra.

 

Svanhildur lagði áherzlu á mikilvægi þess að starfsmenn væru með í stefnumótuninni þegar mörkuð væri stefna um samfélagsábyrgð; þá væru þeir jafnframt miklu virkari í að bera ábyrgð á verkefnunum og fylgjast með framgangi þeirra. Innri markaðssetning, þar sem störf hvers og eins væru tengd við verkefnin, væri því mikilvægur þáttur í stefnumótuninni.

 

Glærur Ketils

 

Glærur Svanhildar

 

Samfélagsskýrsla Ölgerðarinnar

 

Rannsókn Grant Thornton

 

Skýrsla McKinsey

 

Skýrsla KPMG

 

Skýrsla Deloitte

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning