Samkeppni í flugi: Ráðuneytið beitir sér ekki með beinum hætti

03.07.2017

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur svarað bréfi Félags atvinnurekenda frá 28. apríl síðastliðnum, þar sem gengið var á eftir svörum um aðgerðir ráðuneytisins í framhaldi af tilmælum Samkeppniseftirlitsins frá október 2015 vegna samkeppni í millilandaflugi. FA skrifaði ráðuneytinu fyrst vegna málsins í febrúar 2016.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að það telji sér ekki heimilt að beita sér með beinum hætti í framhaldi af tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Í bréfinu kemur þó fram að ráðuneytið hyggist gera þrennt til að mæta tilmælunum.

Í fyrsta lagi segist ráðuneytið munu „senda formanni samræmingarnefndar Keflavíkurflugvallar bréf þar sem nefndin verður hvött til að taka til skoðunar hvort ástæða sé til að nefndin samþykki sérstakar leiðbeiningarreglur fyrir flugvöllinn.“

Í öðru lagi hvetur ráðuneytið samræmingarnefndina „til að taka málið til skoðunar og meta kosti þess og galla að setja sérstakar leiðbeinandi reglur vegna úthlutunar afgreiðslutíma.“ Ráðuneytið segist hafa verið upplýst um aðgerðir Isavia ohf. til að stuðla að aukinni dreifingu flugrekenda innan dagsins, meðal annars með lækkun gjalda utan háannatíma, sem stuðli að betri nýtingu flugstöðvarinnar og fjölgun flugrekenda sem stundi reglubundið flug til landins.

Í þriðja lagi boðar ráðuneytið að sett verði reglugerð um úthlutun réttinda samkvæmt loftferðasamningum og annarra sambærilegra réttinda á grundvelli loftferðalaga. „Í þessi reglugerð verður gengið út frá því að þegar úthlutað verður takmörkuðum réttindum á grundvelli samninga við önnur ríki skuli gætt að hagsmunum neytenda og því að stuðla að aukinni samkeppni,“ segir í bréfi ráðuneytisins.

Svarbréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til FA

 

Nýjar fréttir

Innskráning