Samkeppnissektir munu hækka – ESA meira áberandi í íslenskum samkeppnismálum

18.02.2016
Gjermund-Mathisen_hires
Gjermund Mathiesen

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, mun láta meira til sín taka með beinum hætti í íslenskum samkeppnismálum. Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Gjermunds Mathiesen, yfirmanns samkeppnismála hjá ESA, á fundi Samkeppniseftirlitsins í morgun.

Í erindi Mathiesens kom fram að á þeim rúmum 20 árum sem EES-samningurinn hefði verið í gildi hefði ESA tekið nokkur íslensk samkeppnismál til rannsóknar, án þess þó að það hefði skilað nokkurri niðurstöðu. Það kæmi honum á óvart ef það breyttist ekki og eðlilegra væri að gera ráð fyrir hinu gagnstæða; að ESA rannsakaði samkeppnisbrot á Íslandi og tæki ákvörðun í framhaldinu, jafnvel um sektir.

Í svari við spurningu frá Páli Rúnari Kristjánssyni, lögmanni FA, sem sat í pallborði á fundinum, sagði Mathiesen skýrt að ESA yrði meira áberandi og sýnileg á Íslandi og það myndi vonandi stuðla að virkari samkeppni og vera í þágu íslenskra neytenda.

Gætu fengið fleiri kvartanir frá Íslandi
Að sögn Mathiesens er ein ástæða þess að ESA hefur rannsakað mun fleiri mál í Noregi en á Íslandi sú að norska samkeppniseftirlitið var um skeið hálflamað eftir flutning frá Osló til Björgvinjar, en 98% starfsmannanna fluttu ekki með stofnuninni og þurfti að ráða nýja. Þá bærust ESA fleiri kvartanir frá Noregi en frá Íslandi, en það gæti breyst ef ESA yrði sýnilegri í íslenskum samkeppnismálum. Samkeppniseftirlitið á Íslandi hefði einnig staðið sig mjög vel við rannsókn mála.

Mathiesen sagði að færi svo að ESA rannsakaði íslensk samkeppnismál með beinum hætti hefði stofnunin heimildir til að gera húsleit, rétt eins og Samkeppniseftirlitið. Slík rannsókn yrði þá gerð með íslenskumælandi starfsmönnum ESA,  í samstarfi við Samkeppniseftirlitið og íslensku lögregluna og að fenginni húsleitarheimild innlends dómstóls.

Hann benti ennfremur á að færi svo að ESA tæki ákvörðun í samkeppnismálum sem varðaði íslensk fyrirtæki væri áfrýjunarferlið mun styttra en þegar um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins væri að ræða. Í stað þess að mál færu í gegnum áfrýjunarnefnd samkeppnismála, héraðsdóm og Hæstarétt, færu þau eingöngu til EFTA-dómstólsins, sem væri fyrsta og síðasta stjórnvaldið sem hægt væri að áfrýja til.

ESA_logo_Col_600

Samræming og hækkun sekta
Talsvert var rætt um sektir fyrir samkeppnisbrot á fundinum. Mathiesen sagði að færa mætti rök fyrir að sektir hefðu verið of lágar og haft of lítinn fælingarmátt, enda væru dæmi um að fyrirtæki sem hefðu verið sektuð væru tekin aftur til rannsóknar vegna gruns um samkeppnislagabrot. Hann sagði að framundan væri aukin samræming samkeppnissekta í öllum ríkjum EES.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í pallborðsumræðum að samræming sekta á milli EES-ríkja myndi þýða að samkeppnissektir hækkuðu á Íslandi. Í samanburði við leiðbeinandi reglur ESA um samkeppnissektir væru samkeppnissektir á Íslandi lágar. Hann benti á að Samkeppniseftirlitið hefði tekið ákvörðun um 60 sektir. Þar af hefðu sex fyrirtæki verið sektuð oftar en einu sinni og eitt sex sinnum (Síminn). Það benti til þess að fælingarmáttur sektanna væri ekki nægilegur.

Gegnsæið má ekki vera of mikið
Samkeppniseftirlitið hefur ekki formlegar leiðbeinandi reglur um ákvörðun sekta eins og til dæmis ESA og norska samkeppniseftirlitið. Páll Gunnar sagði að þróunin hjá Samkeppniseftirlitinu yrði þó í átt til meira gegnsæis hvað sektarákvarðanir varðaði. Hins vegar mætti gegnsæið ekki vera of mikið; menn vildu ekki að fyrirtæki gætu reiknað út fyrirfram hversu hárri sekt þau gætu búist við í samhengi við ávinning af samkeppnisbrotum. Mathiesen tók undir þetta sjónarmið og sagði að gegnsæinu hvað sektarákvarðanir varðaði væru takmörk sett.

Í tillögum Félags atvinnurekenda um samkeppnismál, undir merkjum Falda aflsins, er lagt til að rætt verði að hækka samkeppnissektir.

Tillögur FA um samkeppnismál

Nýjar fréttir

Innskráning