Viðsemjendur Félags atvinnurekenda innan Alþýðusambandsins hafa allir samþykkt kjarasamningana sem gerðir voru síðla í janúar. Niðurstöður atkvæðagreiðslna innan félaganna lágu fyrir á hádegi í dag.
Af félagsmönnum í VR og Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna, sem greiddu atkvæði um samninginn, sögðu 294 já eða 91,59%. Nei sögðu 25 eða 7,79%. Auðu skiluðu 2 eða 0,62%. Kjarasamningurinn var því samþykktur. Á kjörskrá voru 1.677. Alls greiddi 321 atkvæði eða 19,14%.
Hjá Grafíu, stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, voru 77 á kjörskrá og tóku 8 þátt í atkvæðagreiðslunni, eða 10,4%. Allir sögðu já eða 100%.
Í atkvæðagreiðslu hjá Rafiðnaðarsambandinu var 161 á kjörskrá. Þátt í atkvæðagreiðslunni tóku 28 eða 17,4%. Já sögðu 26 eða 92,86% en nei sögðu 2 eða 7,14%.
Kjarasamningarnir eru því allir samþykktir og ber að greiða út laun samkvæmt þeim um komandi mánaðamót. Stjórn FA hefur þegar samþykkt samningana. Þeir voru kynntir fyrir félagsmönnum FA á félagsfundi 29. janúar.