Kjarasamningur Félags atvinnurekenda og Félags lykilmanna var kynntur á fundi með félagsmönnum FA í morgun. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, fór yfir helstu atriði samningsins og samanburð við aðra gildandi kjarasamninga FA. Þá kynnti Gunnar Páll Pálsson, formaður FLM, félagið í stuttu máli.
Samningur FLM og FA er um margt sambærilegur við gildandi samning FA og Lyfjafræðingafélags Íslands (LÍ) að því leyti að hann er ekki gerður til ákveðins tíma og inniheldur ekki sérstakan launalið, heldur er gengið út frá því að félagsmenn FLM séu stjórnendur og sérfræðingar sem semja á einstaklingsgrundvelli um markaðslaun. Samningurinn kveður fyrst og fremst á um ýmis réttindamál á borð við ráðningarsamninga, starfsmannaviðtöl, orlof, veikindarétt, tryggingar og fleira slíkt.
Í máli Ólafs kom fram að auk þessa væri helsti munurinn á FLM-samningnum og öðrum kjarasamningum að vinnuveitendur greiddu hvorki í orlofs- né starfsmenntasjóði, en á móti kæmi að tryggingavernd
Talsverður hópur félagsmanna í FLM er í vinnu hjá aðildarfyrirtækjum FA. Ólafur sagði að með samningnum væru réttindi þessa hóps betur tryggð en áður, sem ætti að vera sameiginlegt hagsmuna- og metnaðarmál vinnuveitenda og launþega.
Gunnar Páll Pálsson, formaður FLM, kynnti félagið stuttlega. Hann sagði að rekstur þess væri einfaldur og snerist fyrst og fremst um að reka sjúkrasjóð. Félagið veitti enga styrki til félagsmanna og hefði ekki starfsmenntasjóð, orlofssjóð eða varasjóð. Hlutverk sjúkrasjóðsins, sem vinnuveitendur greiða í, væri fyrst og fremst að brúa bilið á milli veikindaréttar og bóta frá lífeyrissjóði vegna veikinda eða slysa. Einfalt væri að skrá sig í félagið, launþegar gerðu það sjálfir og tryggingaverndin tæki gildi strax daginn eftir skráningu.